23. febrúar 2022

Yfirlýsing vegna nýlegs dóms Héraðsdóms Norðurlands eystra

Að gefnu tilefni vilja UNICEF á Íslandi, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Heimili og skóli – Landssamtök foreldra ítreka að samkvæmt 19. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda barn gegn hvers kyns ofbeldi meðan það er í umsjá foreldra, lögráðamanns eða annarra.

23. febrúar 2022 Að gefnu tilefni vilja UNICEF á Íslandi, Barnaheill – Save the Children á Íslandi og Heimili og skóli – Landssamtök foreldra ítreka að samkvæmt 19. grein Barnasáttmálans skulu stjórnvöld gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda barn gegn hvers kyns ofbeldi meðan það er í umsjá foreldra, lögráðamanns eða annarra. Þegar barn hefur sætt illri meðferð skal tryggja nauðsynlegan stuðning og ef við á tryggja afskipti dómara.[1]

Ofbeldi gegn börnum er vandamál á Íslandi og upplifa rúm 6% barna ofbeldi af hendi fullorðins aðila fyrir 18 ára aldur.[2] Í byrjun árs 2021 bentu Umboðsmaður barna, Tabú og Þroskahjálp í bréfi til dómsmálaráðuneytisins og Dómstólasýslunnar á að alþjóðlegar rannsóknir leiði í ljós að börn og ungmenni með fötlun séu í mun meiri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Samt sem áður fer aðeins lítill hluti slíkra mála fyrir dómstóla og minni líkur eru á sakfellingu en í öðrum sambærilegum málum.[3] Baráttufólk fyrir réttindum barna hefur í áratugi unnið að því að breyta viðhorfum til barna og tryggja velferð þeirra og öryggi. Það var því reiðarslag að lesa dóm sem féll í héraðsdómi Norðurlands eystra þar sem skeytingaleysi gagnvart réttindum barna og úreltar hugmyndir skutu aftur upp kollinum.

Þrátt fyrir að í dómnum sé fjallað um ofbeldi kennara gegn barni vísar dómurinn hvergi til 19. greinar Barnasáttmálans eða réttinda barnsins yfir höfuð. Þá er ekki minnst á að milli barns og fullorðins einstaklings ríkir valdaójafnvægi sem gerir barnið tilfinningalega, vitsmunalega og líkamlega viðkvæmara. Þess í stað er orðfæri dómsins gildishlaðið og látið að því liggja að viðbrögð barnsins hafi verið röng en viðbrögð fullorðna aðilans hafi verið rétt og jafnvel eðlileg. Þannig segir orðrétt í dómnum: „Dómurinn telur viðbrögð stefnanda skiljanleg í ljósi aðstæðna þótt ekki sé hægt að samþykkja þau“. Þetta kemur vafalaust flestum sem vinna með börnum spánskt fyrir sjónir og sem betur fer beitir fagfólk alla jafna ekki ofbeldi. Raunar treystum við því sem samfélag að fagfólk beiti ekki ofbeldi og á grundvelli þess trausts senda foreldrar börnin sín í skóla án fylgdar.

Ámælisvert er að í dómnum er hvorki að finna viðurkenningu á viðkvæmri stöðu barnsins né áréttingu dómara á því að aldrei skuli beita börn ofbeldi og að fagfólki beri skylda til að vernda börn. Vísað er til reglugerðar sem ítrekar skyldu starfsfólks til þess að bregðast við ef háttsemi nemenda leiðir af sér hættu fyrir aðra[4] og laga sem kveða á um að nemendur skulu hlíta fyrirmælum starfsfólks skóla.[5] Hvergi er hins vegar minnst á að í sömu reglum og lögum er kveðið skýrt á um að starfsfólk skóla skuli bera velferð nemenda fyrir brjósti, sýna þeim stuðning, rækja starfs sitt af fagmennsku og alúð eða haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis. Í ljósi þessa kemur ekki á óvart að niðurstaða dómsins sé að ekki hafi verið um gróft brot í starfi að ræða, en þá niðurstöðu verður að skoða í ljósi þess að hvergi er minnst á réttindi barnsins.

Ljóst er að dómurinn leggur sig fram um að réttlæta ofbeldi gegn barni, þrátt fyrir að hann segist ekki samþykkja það. Við viljum undirstrika það að 19. gr. Barnasáttmálans er afdráttarlaus og ofbeldi gegn barni er aldrei réttlætanlegt.

Það er áhyggjuefni ef dómstólar landsins ýta undir fordóma gagnvart börnum og viðurkenna ekki rétt barna til verndar gegn ofbeldi. Það færir baráttuna fyrir réttindum barna áratugi aftur í tímann. Við skorum á dómstóla landsins til þess að fylgja Barnasáttmálanum, berjast gegn fáfræði um réttindi barna, tryggja vernd barna, og ábyrgð fullorðinna.

Fyrir hönd UNICEF á Íslandi, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

og Heimili og skóli – Landssamtaka foreldra

__________________________

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi

Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi

Arnar Ævarsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla – Landssamtaka foreldra

__________________________

[1] „Aðildarríki skal gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni. Eftir því sem við á skulu meðal slíkra verndarráðstafana vera virkar ráðstafanir til að koma á félagslegri þjónustu til að veita barni og þeim sem hafa það í sinni umsjá nauðsynlegan stuðning, og til að koma á öðrum forvörnum, svo og til að greina, tilkynna, vísa áfram, rannsaka, taka til meðferðar og fylgjast með tilfellum er barn hefur sætt illri meðferð svo sem lýst hefur verið, svo og ef við á til að tryggja afskipti dómara.“



[2] UNICEF á Íslandi 2019. Staða barna á Íslandi: Ný tölfræði um þróun ofbeldi gegn börnum á Íslandi. Sótt 22 febrúar 2022: http://unicef-temp.s3-website-eu-west-1.amazonaws.com/stadabarnaaislandi_final_0.pdf



[3] Umboðsmaður barna, Tabú og Þroskahjálp. 2021. Bréf til dómsmálaráðuneytisins og Dómstólasýslunnar. Sótt 22 febrúar 2022: Ofbeldi-gegn-fotludum-bornum_UB_ThH_Tabu.pdf (barn.is)



[4] Reglugerð um ábygð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011



[5] Lög um grunnskóla nr. 91/2008













Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn