Réttindaskóli og -frístund UNICEF
Réttindaskóli og -frístund UNICEF er hugmyndafræði og hagnýtt verkfæri til þess að innleiða lög um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í leikskólum, grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum.
Markmið Réttindaskóla og -frístundar er að leggja Barnasáttmálann til grundvallar í öllu starfi; skipulagningu, stefnumótun og starfsháttum og byggja upp lýðræðislegt umhverfi með því að rækta með markvissum hætti þekkingu, leikni og viðhorf sem hjálpar börnum að verða gagnrýnir og virkir þátttakendur í nútímasamfélagi. Með þetta að markmiði eru grunnforsendur Barnasáttmálans útgangspunktur fyrir allar ákvarðanir í skóla- og frístundastarfi auk þess sem þær endurspeglast í samskiptum barna, ungmenna, kennara, frístundaráðgjafa og annars starfsfólks.
Fimm langtímamarkmið Réttindaskóla UNICEF eru:
- Börn og fullorðin þekkja réttindi barna (42. grein Barnasáttmálans)
- Börn taka þátt og hafa áhrif (12. grein Barnasáttmálans)
- Börn njóta jafnra tækifæra (2. grein Barnasáttmálans)
- Börn upplifa að hagsmunir þeirra séu settir í forgang (3. grein Barnasáttmálans)
- Börn upplifa öryggi og að réttindi þeirra séu virt (4. grein Barnasáttmálans)
Réttindaskóli og -frístund UNICEF byggir á heildarskólanálgun þar sem innleiðing réttinda barna í skólastarfið er í fjórum skrefum:
- Fyrsta skref er að börnin njóti þeirra réttinda að mennta sig. AÐ LÆRA ERU RÉTTINDI
- Skref tvö er að börn og fullorðin þekki og læri um réttindi barna. AÐ LÆRA UM RÉTTINDI
- Í skrefi þrjú læra börn um réttindi sín í umhverfi sem styður við réttindi þeirra. AÐ LÆRA Í RÉTTINDAUMHVERFI
- Lokaskrefið er að börn iðki réttindi fyrir sig sjálf og aðra. AÐ LÆRA AÐ IÐKA RÉTTINDI
Hvernig virkar verkefnið?
Í Réttindaskóla og -frístund er unnið markvisst að einum af grunnþáttum íslenskrar menntunar, lýðræði og mannréttindum. Áhersla er lögð á barnaréttindafræðslu fyrir jafnt börn og fullorðna, og að börn séu virkir þátttakendur í lýðræðislegu samfélagi. Með innleiðingu Réttindaskóla og -frístundar felast mörg tækifæri til að vefa mannréttindi og lýðræði inn í starfið og styðja þannig við markmið um menntun og farsæld barna.
Innleiðing Barnasáttmálans er í átta skrefum: 1) að byggja upp grunninn, 2) stöðumat, 3) aðgerðaráætlun, 4) framkvæmd aðgerða, 5) annað stöðumat, 6) úttekt, 7) viðurkenning, og 8) fræðsla í gegnum allt ferlið. Skrefin leiða þátttakendur í gegnum hvern hluta innleiðingarinnar með skýrum leiðbeiningum og gátlistum. Þegar fyrsta hring er lokið hefst sá næsti og haldið er áfram með réttindastarfið.