UNICEF varar við því að nýlegur og fyrirsjáanlegur niðurskurður á alþjóðlegum fjárveitingum til þróunaraðstoðar muni koma niður á lífsnauðsynlegri næringarþjónustu 14 milljóna barna hið minnsta á árinu. Skerðingin auki verulega hættu á alvarlegri vannæringu og dauða. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greinir frá þessu nú þegar þjóðarleiðtogar koma saman á ráðstefnuna Nutrition for Growth í París.
Niðurskurður ríkja kemur á sama tíma og fordæmalaus þörf er á næringaraðstoð fyrir börn í heimi þar sem metfjöldi nauðungarflutninga, ný og langvinn átök geisa, sjúkdómsfaraldrar og lífshættulegar afleiðingar loftslagsbreytinga ógna réttindum og velferð milljóna barna.
„Á undanförnum áratugum höfum við náð merkilegum árangri í baráttunni gegn vannæringu og hungri barna á heimsvísu, þökk sé sameiginlegri skuldbindingu og stöðugri fjárfestingu. Frá árinu 2000 hefur fjöldi barna undir fimm ára aldri með vaxtarröskun vegna vannæringar dregist saman um 55 milljónir og lífi milljóna barna með alvarlega vannæringu hefur verið bjargað. En stórfelldur niðurskurður fjárveitinga mun snúa þessum framförum við og stofna lífi milljóna fleiri barna í hættu,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu um greiningu samtakanna á stöðunni.
Viðbótaráhrif fjárveitinganiðurskurðar á börn á 17 forgangssvæðum næringarþjónustu fela meðal annars í sér:
• Meira en 2,4 milljónir barna sem þjást af alvarlegri bráðavannæringu gætu verið án lífsbjargandi meðferðar með næringarfæði eins og næringarríku jarðhnetumauki (RUTF) það sem eftir er ársins 2025.
• Allt að 2.300 lífsbjargandi stöðugleikamiðstöðvar – sem veita börnum með alvarlega vannæringu og læknisfræðileg vandamál nauðsynlega umönnun – eru í hættu á að loka eða draga verulega úr þjónustu sinni.
• Nær 28.000 meðferðarmiðstöðvar UNICEF fyrir vannæringu eru í hættu, og sumar hafa þegar hætt starfsemi.
Besta fjárfestingin sem skilar sér margfalt til baka
Í dag er tíðni rýrnunar vegna alvarlegrar vannæringar meðal barna undir fimm ára aldri enn á hættulega háu stigi á sumum viðkvæmum svæðum og neyðarsvæðum. Jafnvel áður en niðurskurður fjárveitinga hófst hafði fjöldi barnshafandi – og kvenna með börn á brjósti- og unglingsstúlkna með bráðavannæringu aukist úr 5,5 milljónum í 6,9 milljónir – eða um 25% – frá árinu 2020. UNICEF gerir ráð fyrir að þessi tala haldi áfram að hækka án tafarlausrar aðgerða frá styrktaraðilum og viðeigandi fjárfestinga stjórnvalda í hverju landi.
„UNICEF kallar eftir því að stjórnvöld og styrktaraðilar forgangsraði fjárfestingum til heilbrigðis- og næringarúrræða fyrir börn og hvetur stjórnvöld til að úthluta meira fjármagni til innlendra næringar- og heilbrigðisþjónustu. Góð næring er undirstaða lífs og þroska allra barna, og það er fjárfesting sem skilar sér margfalt tilbaka. Þar er arðsemin mæld í sterkari fjölskyldum, samfélögum og ríkjum sem og stöðugleika í heiminum,“ segir Russell að lokum.
UNICEF heldur áfram að starfa í þágu barna heimsins
UNICEF er staðráðið í að halda áfram að starfa fyrir börn heimsins með því að forgangsraða áhrifaríkum aðgerðum, hámarka nýtingu fjármagns og flýta fyrir hagræðingaraðgerðum. Hins vegar eru tafarlausar og brýnar aðgerðir nauðsynlegar til að milda áhrif niðurskurðarkrísuna á börn, vernda þau viðkvæmustu og tryggja þeim betri framtíð.
Til að bregðast við vannæringu barna og mæðra til lengri tíma – þar á meðal með forvörnum, skimun og meðferð vannæringar – setti UNICEF á laggirnar Child Nutrition Fund (CNF) árið 2023 með stuðningi UK Foreign Commonwealth and Development Office, Gates Foundation og Children’s Investment Fund Foundation. UNICEF heldur áfram að hvetja stjórnvöld, samstarfsaðila og velgerðarsjóði til að leggja sitt af mörkum í þennan lífsbjargandi sjóð og önnur sveigjanleg fjármögnunarverkefni í þágu barna og kvenna.