25. mars 2025

Sameinuðu þjóðirnar: Áratuga framfarir í baráttunni gegn barnadauða í hættu

Milljónir barna eru á lífi í dag vegna stuðnings alþjóðasamfélagsins – En niðurskurður til þróunaraðstoðar nú er ógn við þær framfarir sem náðst hafa og gætu kostað milljónir barna lífið.

Öll börn eiga skilið sanngjarnt tækifæri til lífs og það er sameiginleg ábyrgð okkar að tryggja að ekkert barn sé skilið eftir. – Mynd/UNICEF/UNI669234/Dejongh

Niðurskurður ríkja til þróunaraðstoðar mun hafa skelfilegar afleiðingar á þann árangur sem náðst hefur í baráttunni gegn barnadauða í heiminum síðustu áratugi og getur kostað milljónir barna lífið. Frá þessu er greint í tveimur nýjum skýrslum Sameinuðu þjóðanna sem birtar voru í dag af Inter-Agency Group for Child Mortality Estimation (UN IGME)

Fjöldi barna sem létu lífið fyrir fimm ára aldur fór niður í 4,8 milljónir árið 2023 á sama tíma og fjöldi andvana fæddra barna dróst hóflega saman og nam um 1,9 milljónum. Frá árinu 2000 hefur barnadauði í heiminum dregist saman um helming og fjöldi andvana fæddra barna um rúmlega þriðjung þökk sé viðvarandi fjárfestingu ríkja í lífsbjargandi aðgerðum í þágu barna um allan heim. Árið 2022 náðist sá sögulegi árangur að barnadauði fór í fyrsta skipti undir 5 milljónir. Áhyggjuefni er þó að hægst hefur á árangri og enn eru of mörg börn að deyja af orsökum sem hægt er að koma í veg fyrir.

„Milljónir barna eru á lífi í dag vegna stuðnings alþjóðasamfélagsins við sannreyndar leiðir í baráttunni, eins og bólusetningar, næringu, aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisþjónustu,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu vegna útgáfu skýrslnanna. „Það var ótrúlegt afrek að ná sögulegu lágmarki í fjölda barna sem deyja af fyrirbyggjanlegum orsökum. En ef rétta stefnumótun og nægilegt fjármagn skortir, hættum við á að glata niður þessari jákvæðu þróun og missa milljónir barna. Það má ekki gerast.“

Boðaður niðurskurður þjóða stærsta ógnin

Það að stórir styrktaraðilar meðal þjóða hafa ýmist tilkynnt um eða gefið í skyn veruleg niðurskurðaráform til þróunaraðstoðar mun það hafa verulega skaðleg áhrif á áðurnefndan árangur og jákvæða þróun. Niðurskurður í fjármögnun lífsbjargandi verkefna og áætlana er þegar að valda skorti á heilbrigðisstarfsfólki, lokun heilsugæslustöðva, röskun á bólusetningarverkefnum og skorti á nauðsynlegum sjúkragögnum og lyfjum. Niðurskurðurinn er að hafa alvarleg áhrif á landsvæðum þar sem ríkir mannúðarkrísa, hjá skuldugum ríkjum og svæðum þar sem hlutfall barnadauða er þegar hátt. Niðurskurður til þróunaraðstoðar grefur einnig undan öllu eftirliti og eftirfylgni og gerir hjálparsamtökum erfitt um vik að ná til barna í viðkvæmri stöðu, varar UN IGME við.

Því þótt sögulegur árangur hafi náðst frá aldamótum má aldrei taka þeim árangri sem sjálfsögðum hlut. Eins og áður segir hefur hægst á framförum. Frá árinu 2015 hefur hægst á samdrætti í barnadauða um 42 prósent og andvana fæðingum um 53 prósent samanborið við tímabilið 2000-2015.

Nær helmingur allra dauðsfalla barna undir fimm ára á sér stað á fyrsta mánuði lífs þeirra. Að mestu vegna fyrirburafæðinga og vandkvæða í fæðingu. Eftir nýburaskeið eru það smitsjúkdómar, eins og bráða öndunarfærasýkingar líkt og lungnabólga, malaría og niðurgangur, sem eru helsta fyrirbyggjanlega dánarorsök barna undir fimm ára aldri í heiminum í dag.

Aukið aðgengi bjargar lífum

Aukinn aðgangur að gæðaþjónustu fyrir mæður, nýbura og börn, á öllum stigum heilbrigðiskerfisins, mun bjarga fjölda lífa, samkvæmt skýrslunum. Þetta felur í sér forvarnar- og heilsueflandi þjónustu í samfélaginu, tímanlegar heimsóknir í heilsugæslu og til heilbrigðisstarfsfólks við fæðingu, gæða mæðra- og ungbarnavernd fyrir og eftir fæðingu, reglubundnar bólusetningar og yfirgripsmikla næringaráætlun, greiningu og meðferð algengra barnasjúkdóma, auk sérþjónustu fyrir minnstu og veikustu nýburana.

Ein af stærstu áskorunum samtímans

Skýrslurnar varpa einnig ljósi á ójöfnuð milli þjóða og að fæðingarstaður hefur veruleg áhrif á lífslíkur barna. Þannig er hættan á að barn deyi fyrir fimm ára aldur 80 sinnum hærri í ríkjum með hæstu dánartíðni barna samanborið við þau ríki sem hafa lægstu dánartíðnina. Börn sem búa við fátækt, á afskekktari svæðum og  þar sem menntastig mæðra er lágt eru í mestri hættu.

„Þessi mismunur á barnadauða milli og innan þjóða er ein af stærstu áskorunum samtímans,“ segir Li Junhua, aðstoðarframkvæmdastjóri DESA, efnahags- og félagsmálaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. „Að draga úr þessum mismuni er ekki einungis siðferðisleg skylda heldur einnig lykilskref í átt til sjálfbærrar þróunar og alþjóðlegs jöfnuðar. Öll börn eiga skilið sanngjarnt tækifæri til lífs og það er sameiginleg ábyrgð okkar að tryggja að ekkert barn sé skilið eftir.“

Meðlimir UN IGME skora á ríkisstjórnir, styrktaraðila og samstarfsaðila í opinbera og einkageiranum að verja framfarir síðustu áratuga í baráttunni fyrir lífi og velferð barna og hraða aðgerðum. Aukin fjárfesting, samþætting þjónustu og nýsköpun er nauðsynlegir þættir til að auka aðgang að öruggri heilbrigðisþjónustu, næringu og félagslegri vernd fyrir börn og barnshafandi konur.

---- 

Ítarefni:

Skýrslu UN IGME um barnadauða má nálgast hér.

Skýrslu UN IGME um andvana fædd börn má nálgast hér.

Fleiri
fréttir

28. mars 2025

Heimsbyggðin geti ekki hunsað „helvíti á jörðu“ í Súdan
Lesa meira

27. mars 2025

Niðurskurður bitnar á lífsnauðsynlegri næringarþjónustu fjórtán milljóna barna
Lesa meira

25. mars 2025

Sameinuðu þjóðirnar: Áratuga framfarir í baráttunni gegn barnadauða í hættu
Lesa meira
Fara í fréttasafn