„Við getum ekki lokað augunum fyrir þessu helvíti á jörðu,“ segir Sheldon Yett, fulltrúi UNICEF í Súdan, um skelfilega stöðu barna og mannúðarkrísu í Darfur-héruðum Súdan. Alvarleg brot gegn börnum hafa aukist verulega á svæðunum það sem af er ári samanborið við síðasta ár.
Í Al Fasher í Norður-Darfur, hafa að minnsta kosti 70 börn verið drepin eða alvarlega særð á innan við þremur mánuðum. Stóran hluta þessa má rekja til árása á Zamzam-flóttamannabúðirnar í Al Fasher.
Börn í lífshættu að aðkomuleiðir lokaðar
„Áætlað er að 825.000 börn séu föst í vaxandi hörmungum í og í kringum Al Fasher,“ segir Yett. „Tala látinna er að líkindum mun hærri og börn berjast daglega fyrir lífi sínu. Lífshætta og dauði vofir yfir börnum, hvort heldur sem er vegna bardaga sem umkringja þau eða hruns á allri lífsnauðsynlegri þjónustu sem þau reiða sig á til að lifa af.“
Meira en 60.000 einstaklingar hafa neyðst til að flýja heimili sín í Norður-Darfur á aðeins sex vikum, sem bætast við þau 600.000 sem þegar hafa flúið frá apríl 2024, þegar átök tóku að harðna, til janúar 2025 – þar af 300.000 börn. Áætlað er að 900.000 manns séu enn í Al Fasher og 750.000 í Zamzam-búðunum, innlyksa vegna logandi átaka. Helmingur þeirra eru börn.
Allar aðkomuleiðir eru lokaðar. Vegurinn milli Tawila og Zamzam, sem áður var lífsnauðsynleg samgönguleið, er nú ófær af öryggisástæðum. Vopnaðar sveitir herja á sveitaþorp og óöryggi hefur gert afhendingu neyðaraðstoðar og nauðsynlegra birgða nær ómögulega. Samfélög glíma við skelfilegan skort á vatni, mat, lyfjum og næringu. Matvælaverð hefur nær tvöfaldast á þremur mánuðum.
Sjá einnig: Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan.
UNICEF heldur áfram- þó mörg samtök hafi hörfað
Þrátt fyrir að mörg samtök hafi stöðvað starfsemi sína á svæðinu, heldur UNICEF áfram að vinna fyrir börn í samstarfi við Relief International, Tabasheer, Patient Helping Fund og heilbrigðisyfirvöld í Al Fasher-borg, auk Zamzam- og Abu Shok-flóttamannabúðanna.
Vannæring er útbreidd. Í Norður-Darfur eru meira en 457.000 börn með bráðavannæringu, þar af um 146.000 sem þjást af alvarlegustu gerðinni (SAM) – sem er lífshættulegasta form vannæringar. Sex sveitarfélög í ríkinu eru á barmi hungursneyðar og tilheyra þeim svæðum sem hafa orðið verst úti vegna ofbeldis og hindrana á aðgangi að hjálpargögnum.
Sæta hótunum og birgðir á þrotum
UNICEF afhenti næringarfæði og önnur lífsbjargandi hjálpargögn til Al Fasher fyrir þremur mánuðum, en þær birgðir eru nú á þrotum. Ítrekaðar tilraunir UNICEF og samstarfsaðila til að afhenda fleiri birgðir hafa mistekist vegna hótana frá vopnuðum hópum og glæpagengjum. Í Zamzam fá 2.300 börn með alvarlega bráðavannæringu nú meðferð, en birgðir af næringarfæði munu klárast innan þriggja vikna.
Heilsu-, næringar- og hreinlætisbirgðir sem komið hafði verið fyrir til dreifingar eru fastar í El Koma og Tawila, Norður-Darfur. Skothríð í Zamzam hefur einnig neytt heilbrigðisstarfsfólk á heilsugæslustöðvum sem UNICEF styrkir til að flýja tímabundið sem setur veik börn í enn meiri hættu.
UNICEF áætlar að 500.000 börn séu í bráðri lífshættu ef hjálpargögn og neyðarbirgðir verða ekki afhentar.
UNICEF kallar eftir því að allar aðilar tryggi öruggan, óhindraðan aðgang fyrir mannúðaraðstoð, svo lífsbjargandi hjálp berist börnum í Al Fasher, Zamzam og öðrum átakasvæðum.
„UNICEF heldur áfram að kalla eftir því að stjórnvöld í Súdan, allar fylkingar í átökunum og ytri stuðningsaðilar þeirra grípi tafarlaust til sameiginlegra aðgerða til að binda enda á átökin og virði alþjóðalög, þar með talið óhindraðan flutning og dreifingu hjálpargagna. Líf barna er í húfi,“ segir Yett að lokum.
Sjá einnig: Neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Súdan.