09. maí 2024

Yfirlýsing framkvæmdastjóra UNICEF vegna hernaðaraðgerða og lokun landamæra Rafah

Ef landamærastöðvar verða ekki opnaðar til að hleypa inn eldsneyti og neyðarbirgðum munu afleiðingarnar verða lífshættulegar nánast samstundis.

„Mannúðaraðstoð UNICEF og samstarfsaðila okkar – og þar með líf allra barna og fjölskyldna þeirra á Gaza-svæðinu sem eru háð þeirri aðstoð – krefst eldsneytis. Við þurfum eldsneyti til að flytja neyðarbirgðir – lyf, meðferðir við vannæringu, tjöld og vatn – sem og að flytja starfsfólk til að ná til barna og fjölskyldna í neyð. Auknar hernaðaraðgerðir á Rafah-svæðinu og lokun helstu landamærastöðva til suðurhluta Gaza hefur skert aðgengi okkar að eldsneyti og mannúðaraðgerðir eru í hættu á að stöðvast,” segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF í yfirlýsingu í dag.

Ástandið á Gaza er skelfilegt. Ef landamærastöðvarnar við Kerem Shalom og Rafah verða ekki opnaðar til að hleypa inn eldsneyti og neyðarbirgðum munu afleiðingarnar vera lífshættulegar nánast samstundis. Án eldsneytist verður ekki hægt að keyra áfram hitakassa fyrir fyrirbura; hætt er á að börn og fjölskyldur ofþorni og neyðist til að drekka hættulegt vatn; skólp mun flæða yfir svæðið og dreifa sjúkdómum enn frekar. Þau örfáu sjúkrahús og heilsugæslustöðvar sem eftir eru gætu orðið eldsneytislaus innan nokkurra daga, ef ekki klukkustunda.

UNICEF hefur varað við því í marga mánuði að hernaðaraðgerðir í Rafah myndu leiða til enn meiri þjáninga. Börn á Gaza hafa þjáðst hræðilega í þessu stríði. Samkvæmt nýjustu tölum hafa meira en 14.000 börn verið drepin og þúsundir til viðbótar hafa slasast eða misst fjölskyldumeðlimi, ástvini eða vini. Talið er að um 17.000 börn séu fylgdarlaus eða aðskilin fjölskyldu sinni. Næstum öll börn Gaza hafa orðið fyrir áfalli, sem þau munu lifa með alla ævi. Börn eru slösuð, örmagna, veik og vannærð. Stigmögnun átaka í Rafah þýðir bara enn meiri sársauka og þjáningu.

UNICEF hefur einnig miklar áhyggjur af brottflutningi almennings á Gaza til óöruggra svæða. Til að bregðast við skipunum um rýmingu í austurhluta Rafah hafa að minnsta kosti 80.000 manns flúið svæðið og margir hafa leitað skjóls í Al-Mawasi og meðal rústa Khan Younis.

„Við höfum varað við því í marga mánuði að Al-Mawasi sé ekki öruggur kostur. Þetta er mjó strandlengja á ströndinni sem skortir grunninnviði – eins og salerni og rennandi vatn – sem þarf til að taka á móti fólki. Ennfremur hafa flest börn í Rafah þegar verið neydd á flótta margsinnis vegna átakanna, sem er í beinni andstöðu við mannréttindi þeirra og alþjóðleg mannúðarlög,” segir Russell.

„Ég biðla til aðila átakanna að hætta tafarlaust stríðsátökum, vernda börn og borgaralega innviði, sleppa öllum gíslum sem eftir eru og veita mannúðarstofnunum það rými og aðgang sem nauðsynlegt er til að veita þá gríðarmiklu neyðaraðstoð sem svo sárlega er þörf á innan Gaza-svæðisins," segir Russell.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn