Í dag kemur út ný árangursskýrsla UNICEF á Íslandi þar sem fjallað er um verkefni samtakanna í þágu barna hérlendis. Í skýrslunni kemur fram að verkefni UNICEF snerta líf yfir helming barna á Íslandi. Þá ganga rúmlega 17.200 börn í Réttindaskóla og -frístund UNICEF þar sem Barnasáttmálinn er lagður til grundvallar öllu starfi.
Samtökin fræða árlega þúsundir starfsmanna sveitarfélaga um Barnasáttmálann og á heimasíðu UNICEF má finna yfir 50 ný myndbönd, námskeið, handbækur og kennsluefni um réttindi barna. Samstarfið við sveitarfélög, skóla og frístundastarf hefur skilað raunverulegum breytingum svo sem aukinni þátttöku barna í ákvarðanatöku og aðgerðum sem stuðla að auknu öryggi barna, heilbrigði og velferð.
„Við erum afar stolt af samstarfi okkar við stjórnvöld um að koma Barnasáttmálanum í framkvæmd. Öll börn á Íslandi eiga að vita af réttindum sínum og finna það á eigin skinni að réttindi þeirra séu virt,“ segir Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri innanlandsstarfs UNICEF á Íslandi.
Mælanlegur árangur í grunnskólum
Meirihluti barna Íslandi hafa heyrt um Barnasáttmálann en í Réttindaskólum og -frístund UNICEF hefur þekking þeirra aukist verulega. Í Réttindaskólum jókst hlutfall barna sem hafa heyrt um Barnasáttmálann úr 85% í 97,5% að meðaltali, en mælingar UNICEF hafa sýnt að þótt börn viti af sáttmálanum vita þau ekki endilega að þau sjálf eigi réttindi.*
- Einungis helmingur barnanna vissi að réttindi Barnasáttmálans ætti við um þau sjálf. En með markvissri fræðslu í tengslum við Réttindaskóla og -frístund jókst hlutfallið að meðaltali úr 53% í 81% sem nú vita að þau eiga réttindi samkvæmt Barnasáttmálum.
- 58% barna héldu, eða voru ekki viss hvort, að hægt væri taka réttindi af þeim ef þau haga sér ekki vel. Eftir markvissa fræðslu og innleiðingu Réttindaskóla og -frístundar lækkaði hlutfallið í 23% barna að meðaltali.
- Þá jókst fjöldi starfsfólks Réttindaskóla og -frístundar sem segist hafa nægan tíma til að tryggja þátttöku og áhrif barna á skólastarfi úr 39% í 52%.
Rannsóknir sýna að börn sem þekkja réttindi sín eru umburðarlyndari, virða frekar fjölbreytileika, eru líklegri til þess að taka afstöðu gegn einelti og öðru ranglæti, standa betur vörð um eigin réttindi og annarra og eru betur undirbúin til þess að leita sér aðstoðar ef þau verða fyrir ofbeldi eða misnotkun. Það er ekki síður mikilvægt að fullorðið fólk þekki réttindi barna til að standa vörð um þau.
Áhrif í þágu barna
Í ár eru 20 ár frá því að landsnefnd UNICEF var stofnuð á Íslandi og hafa samtökin unnið að málefnum barna á Íslandi frá upphafi. Í árangursskýrslunni er litið yfir farinn veg og farið yfir umfangsmikið málsvarastarf landsnefndarinnar síðastliðna áratugi.
„Við höfum í gegnum tíðina tekið saman og kynnt nýjar upplýsingar um stöðu barna sem hafa breytt umræðunni og hrint af stað jákvæðum breytingum. Þar hefur rödd barnanna sjálfra skipt mestu máli og við leggjum okkur fram um að skapa tækifæri fyrir börn að hafa áhrif,“ segir Eva.
Hægt er að nálgast árangursskýrsluna hér.
-------------------------------------------
*Árangursmælingar í Réttindaskólum og -frístund byggja á spurningakönnunum UNICEF á Íslandi sem lagðar eru fyrir börn og starfsfólk í upphafi innleiðingar verkefnisins og í hvert sinn sem sótt er um viðurkenningu. Niðurstöður um þekkingu barna á réttindum sínum byggir á spurningakönnun fyrir börn í 5 – 10 bekk.