„Íslendingar eru mikilvægir stuðningsmenn barna, bæði heimafyrir í gegnum verkefni eins og Barnvæn sveitarfélög, en líka á erlendri grundu,“ sagði Isabel Burchard, yfirmaður samstarfs UNICEF við gjafaríki á Norðurlöndunum og Hollandi, í ávarpi sem hún flutti á vel heppnuðum fundi í Þjóðminjasafni Íslands í dag. Fundurinn bar yfirskriftina Þróunarsamvinna á viðsjárverðum tímum og var á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar, Háskóla Íslands, UNICEF á Íslandi, UN Women Ísland, Rauða Krossins og Barnaheilla – Save the Children á Íslandi.
Í ræðu sinni fór Isabel yfir þær vendingar sem orðið hafa í alþjóðastjórnmálum undanfarið sem m.a. hafa leitt til þess að mörg af stærstu styrktarríkjum þróunaraðstoðar hafa ákveðið að skera niður framlög sín til málaflokksins með tilheyrandi óvissu og afleiðingum á verkefni og þar með velferð og réttindi milljóna barna í tilfelli UNICEF.
Hún hrósaði Íslandi hins vegar í hástert og lagði áherslu á mikilvægi þess að Norðurlöndin héldu áfram að fara fram með góðu fordæmi. Eins komið hefur fram er UNICEF er skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins við UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, afar gott og náið. Íslenska ríkið er álitið fyrirmyndarstyrktaraðili UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga og mikils stuðnings miðað við höfðatölu.
Mikilvægur stuðningur íslenska ríkisins
„Íslensk stjörnvöld hafa sömuleiðis verið staðfastur samstarfsaðili UNICEF í gegnum tíðina og eiga veigamikinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur í þágu barna með kjarnaframlögum sínum og fjárveitingum til sértækra verkefna í þróunarsamvinnu. Árangri sem í mörgum tilfellum hefði ekki verið mögulegur án stuðnings íslenskra stjórnvalda. Það er Íslandi að þakka að rúmlega 50 þúsund börn og fjölskyldur þeirra í Síerra Leóne hafa nú tryggt öruggt aðgengi að hreinu vatni og hreinlætisþjónustu,“ sagði Isabel.
Hún lagði áherslu á í þessu samhengi að í sameiningu og samvinnu séum við sterk og höfum í gegnum þróunarsamvinnu náð miklum árangri síðastliðna áratugi, sem við mættum ekki láta núverandi mótvind og erfiðleika grafa undan.
Ísland er fyrirmynd
„Ísland er einnig fyrirmynd þegar kemur að barnavernd. Módelið sem byggir á hinu íslenska Barnahúsi hefur verið tekið upp og aðlagað af mörgum löndum og er í dag mikilvæg nálgun í Úkraínu til að vernda börn og þolendur ofbeldis,“ sagði Isabel.
„Ísland er viðurkenndur og mikilsmetinn styrktaraðili UNICEF, barna og ungmenna á alþjóðasviðinu og er hlutverk ykkar í Mannréttindaráðinu til vitnis um það. Við erum stolt af samstarfi okkar og er það ósk okkar að sjá það vaxa enn og dafna. Í sameiningu með öðrum sterkum samstarfsþjóðum okkar á Norðurlöndunum deilum við gildum samkenndar og skilnings á því sem er rétt og rangt. En einnig skilning á því hvernig þróunarsamvinna leikur lykilhlutverk í alþjóðlegu heilbrigðisöryggi heimsins og velmegun þessarar þjóðar.“
„Heimurinn þarf Ísland og Ísland þarf að heimurinn haldi áfram að blómstra. Grípum þetta tækifæri til að styrkja samstarf okkar og skapa varanleg áhrif.“