17. nóvember 2023

Vopnahlé á Gaza nauðsynlegt fyrir réttindi barna

Í meira en mánuð hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallað eftir tafarlausu vopnahléi á Gaza og lausn allra gísla. Slíkt hið sama hafa yfirmenn 18 helstu mannúðarsamtaka heimsins gert opinberlega. Á Gaza eru yfir 400 börn drepin eða særð daglega en alls hafa 4.237 börn verið drepin og þúsundir til viðbótar særst. Þessi fjöldi er mun hærri í samanburði við fyrri átök.  

Af 1,1 milljón barna á Gaza glíma um 75 prósent þeirra eða um 850 þúsund börn við mikla vanlíðan og áfallastreitu. Heilbrigðisþjónusta á Gaza er afar skert sem kemur í veg fyrir að um 50 þúsund þungaðar konur fái fæðingarþjónustu en um 180 börn fæðast daglega á Gaza við óöruggar aðstæður.

Mannúðarstarfsfólki einnig ógnað

Lífi starfsfólks mannúðarstofnana k svæðinu er að sama skapi ógnað þar sem árásirnar eru linnulausar. Fram til þessa hafa 89 starfsmenn Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) verið drepnir, sem er mesta mannfall starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í einum og sömu átökunum, frá upphafi. Auk fjölda annarra starfsmanna annarra mannúðarsamtaka og samstarfsaðila UNICEF.

Lucia Elmi, sérstakur fulltrúi UNICEF í Palestínu segir að teymið skipi afar hugrakkir einstaklingar sem séu  staðráðin í því að skila árangri fyrir börn. Lucia benti enn fremur á að þrátt fyrir miklar sprengjuárásir og rafmagnsleysi á svæðinu sem takmarkar samskipti, hafi starfsfólk á Gaza haldið starfsemi sinni áfram.

Lucia segir starfsfólk hafa sýnt gífurlega útsjónasemi í störfum sínum þrátt fyrir erfiðar áskoranir og álag á vettvangi. „Ég held að hvatningin liggi meðal annars í því að við erum að aðstoða samfélagið okkar og fólkið okkar sem tryggir að við náum að halda fókus þrátt fyrir erfiðar aðstæður,“ segir Lucia.

Mikilvægi samræmdra mannúða- og neyðaraðgerða

Starfsfólkið beitir sér fyrir réttindum barna á svæðinu allan sólarhringinn og veitir hlutlausa aðstoð til allra barna í neyð. „Áherslan er í raun að halda áfram að afhenda um milljón manns vatn eins og við höfum unnið að því að gera síðustu fjórar vikurnar. Við höfum að auki afhent meira en 300 þúsund manns sjúkragögn og hefur okkur tekist að veita fjölda fólks á svæðinu fjárhagsaðstoð sem halda í þeim lífi,“ segir Lucia.

Samningaviðræður eru í gangi um fjölgun vörubíla og birgða sem fá aðgang að Gaza ásamt viðræðum um eldsneyti en án þess er ekki hægt að knýja vatnshreinsistöðvar né sjúkrahús. Í því skyni leggur Lucia áherslu á mikilvægi vopnahlés: „Það verður að koma á vopnahléi og það verður að tryggja raunverulegan og öruggan mannúðaraðgang samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum,“ sagði Lucia.

Nýjustu upplýsingar frá UNICEF á Gaza

  • Ríflega 1,5 milljónir manns eru á vergangi innan Gaza sem gera um 60 prósent íbúa svæðisins. Þau standa nú frammi fyrir sífellt versnandi mannúðarástandi með takmarkaðan aðgang að grunnþjónustu eins og hreinu vatni, rafmagni og heilbrigðisþjónustu.
  • Meira en eitt af hverjum þremur sjúkrahúsum og tvær af hverjum þremur heilsugæslum hefur verið lokað á Gaza. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (e. WHO) hefur skráð 235 árásir á heilbrigðisþjónustu á Gaza frá 7. október síðastliðnum.
  • Á Vesturbakkanum búa börn áfram við átakanlegt ofbeldi og óöryggi, 46 börn hafa verið drepin á Vesturbakkanum síðan 7. október.
  • Þörf er á rúmlega 154 milljónum Bandaríkjadala til þess að mæta þörfum allra á svæðinu, svo sem er varðar heilbrigðis-, barnaverndar-, og menntunarþjónustu á Gaza og Vesturbakkanum.

Hvað hefur UNICEF gert?

  • UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, veitir tafarlausa og lífsnauðsynlega mannúðaraðstoð á svæðinu til að styðja fólk sem hefur orðið fyrir áföllum og er á flótta.
  • UNICEF veitir, ásamt samstarfsaðilum aðstoð á svæðinu en einnig á Vesturbakkanum, þar á meðal í Austur-Jerúsalem þar sem UNICEF hefur aukið mannúðarviðbúnað og bregst við þörfum fólks á svæðinu.
  • UNICEF hefur stutt vatnsflutninga og hreinsunarstarfsemi sem þjónustar um milljón manns á Gaza-svæðinu, þar á meðal yfir 560.000 börn.
  • UNICEF hefur komið 30 gámum fyrir fastan úrgang til Gaza og taka þannig á hreinlætismálum á svæðinu. Gámarnir munu gagnast um 26.000 manns á Gaza-svæðinu.
  • UNICEF hefur náð til 194 þúsund kvenna, unglingsstúlkna og nýfæddra barna með neyðaraðstoð
  • 2900 manns, þar af 2600 börn hafa fengið sálfélagslegan stuðning í gegnum hjálparlínur og samstarfsaðila
  • Rúmlega 2000 heimili á svæðinu hafa fengið fjárhagsaðstoð
  • UNICEF hefur staðið að tómstundastarfi fyrir yfir 11 þúsund börn
  • UNICEF veitir meira en 105 þúsund nýbökuðum mæðrum næringu og bætiefni fyrir sig og börnin þeirra

Neyðarsöfnun UNICEF

NEYÐARSÖFNUN UNICEF Á ÍSLANDI FYRIR BÖRN VEGNA ÁTAKNNA Á GAZA ER ENN Í FULLUM GANGI!
Þú getur lagt neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn á Gaza lið með því að senda SMS-ið NEYÐ í númerið 1900 til að styrkja um 2.900kr (Síminn, Hringdu og Nova). 
Eða styrkt með frjálsu framlagi 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn