29. nóvember 2024

Viðurkenningar Réttindaskóla og –frístundar UNICEF aldrei verið fleiri

Alþjóðadegi barna fagnað í Réttindaskólum um allt land – Sjáðu myndirnar

Ungir drengir stoltir með viðurkenningarskjöl í Lindaskóla.

Metfjöldi grunnskóla, frístundaheimila og félagsmiðstöðva fengu viðurkenningu Réttindaskóla og -frístunda í ár. Í heildina hlutu 20 starfsstöðvar viðurkenningu.  Starfsstöðvarnar sem hlutu viðurkenningarnar í nóvember 2024 voru Álfhólsskóli, Álfhóll, Pegasus, Lindaskóli, Demantabær, Jemen, Háaleitisskóli Ásbrú, Háteigsskóli, 105, Halastjarnan, Síðuskóli, Undirheimar, Kátuloft, Kópavogsskóli, Stjarnan, Kjarninn, Grunnskóli Borgarfjarðar, Snælandsskóli, Krakkaland og Igló.

VILTU VITA MEIRA UM RÉTTINDASKÓLA OG -FRÍSTUND? LESTU ALLT UM ÞAÐ HÉR.

Réttindaráð Háteigsskóla með UNICEF fána.

Viðurkenningarathafnirnar voru haldnar hátíðlegar í öllum skólunum á ólíkan hátt en það sem einkenndi þær allar var gleði og stolt barna og starfsfólks sem hafa lagt hart að sér til þess að hljóta sína fyrstu viðurkenningu eða endurmat á fyrri viðurkenningu.

Í flestum tilvikum var undirbúningur og skipulag hátíðahalda í höndum barna í réttindaráði. Hver og ein hátíð bar keim af sérkenni hvers skóla. Dæmi um það er að í einum skólanum ákváðu börnin í réttindaráði að fara með ræður sínar á þremur tungumálum til að tryggja að sem flestir skildu það sem fór fram. Oft voru börn með tónlistaratriði á hátíðunum og í einum skólanum hafði hópur kennara samið óvænt dansatriði sem þau sýndu í íþróttahúsinu við mikinn fögnuð barnahópsins. Þá var viðurkenningarathöfn fléttuð inn í Barnaþing og því lokað með danspartýi sem fyrrverandi nemandi úr grunnskólanum stýrði.

Aðalatriðið var að börnin upplifðu uppbrot og að dagur viðurkenningarathafnar yrði merktur sérstaklega sem uppskeruhátíð allrar þeirrar vinnu sem börn og fullorðnir höfðu lagt í að öðlast viðurkenningu Réttindaskóla og – frístundar UNICEF.

Réttindaráð Grunnskóla Borgarfjarðar.

Börn fá frelsi til að deila hugmyndum sínum

Samkvæmt 13. grein Barnasáttmálans eiga börn að hafa frelsi til að deila hugmyndum sínum. Í flestum Réttindaskólum og -frístund eru hugmyndakassar á hverri starfsstöð þar sem börn fá tækifæri til að koma hugmyndum sínum á framfæri. Börnin hafa einnig möguleika á að koma með hugmyndir í opnum spurningakönnunum. Börn í réttindaráði fara yfir hugmyndirnar, forgangsraða þeim og setja inn í aðgerðaáætlun. Allar hugmyndir eru góðar og þó það sé ekki hægt að framkvæma þær allar þá er hægt að framkvæma einhverjar þeirra.

Bæta aðstoð úti, stækka leiksvæðið og fá t.d. ærslabelg, stærri fótboltavöll, stækka kastalann og fá klifurvegg

Ein af hugmyndum barna í Réttindaskóla- og frístund.

Að fá stundum eftirrétt á föstudögum

Ein af hugmyndum barna barna í Réttindaskóla- og frístund.

Að vera með vinabekki á útisvæði

Ein af hugmyndum barna barna í Réttindaskóla- og frístund.

Virðing fyrir skoðunum barna og hugmyndir sem verða að veruleika

Í 12. grein Barnasáttmálans kveður á um að bera eigi virðingu fyrir skoðunum barna. Í starfsstöðvum Réttindaskóla og -frístundar er lagt upp með að finna hugmyndum barna farveg svo það sé hægt að framkvæma þær. Það er mikilvægt að börnin upplifi að á þau sé hlustað og þau geti haft áhrif á umhverfi sitt. Dæmi um hugmyndir barna sem hafa orðið að veruleika bara núna síðasta árið í Réttindaskólum og -frístund eru breytingar á matseðli í samráði við matráð, bætt útisvæði, betri fótboltavöllur, breytingar á salernisaðstöðu, túrtappar og dömubindi á salerni, nemendastýrðir íslenskutímar, læstir skápar á unglingagangi. Þetta er ekki tæmandi listi en hér á eftir deilum við ræðu frá réttindaráði barna Síðuskóla á Akureyri í nóvember 2024 á viðurkenningarathöfn Réttindaskóla og -frístund UNICEF.

Ræða réttindaráðs Síðuskóla á Akureyri í nóvember 2024:

Það sem við erum stoltust af síðan við hófum vinnuna í réttindaráðinu er eftirfarandi:

Af því að kannanirnar frá ykkur sýndu að það vantaði einstaklingssnyrtingar- var farið í að bæta það. Nú eru 5 nýjar einstaklingsnyrtingar í húsinu.

Fram kom í könnunum að mismikil ánægja var með matinn í mötuneyti. Við fórum á fund Kötu matráðs og nú fá allir bekkir eina óskamáltíð yfir skólaárið.

Þegar farið var að vinna í nýrri skólalóð fengu allir bekkir að koma með hugmyndir varðandi hana. Eins og þið vitið tókst hún gríðarlega vel og erum við ánægð að hafa fengið að taka þátt í því.

Eitt langar okkur að nefna og það eru örvarnar á B-gangi sem settar voru á gólfið síðastliðinn vetur. Þær hurfu því miður og munum við gera aðra tilraun bráðlega og vonumst við til að þær fái að vera í friði og hjálpa okkur að skýra umferðarmenninguna í  skólanum.

Réttindaráð Síðuskóla á Akureyri.

Nær til rúmlega 30% grunnskólabarna á Íslandi

Í nóvember 2024 stunda rúmlega 30% grunnskólabarna á Íslandi nám í skóla sem er kominn með viðurkenningu eða vinnur að því að verða Réttindaskóla og -frístund UNICEF. Starfsstöðvarnar sem taka þátt í innleiðingu Barnasáttmálans á grunnskólastigi eru nú 88 talsins. Þeim fer ört fjölgandi og áhugi á þátttöku í verkefninu hefur aukist.

Réttindaskólar UNICEF byggja á hugmyndafræði UNICEF sem kallast Child Rights Schools.  Rannsóknir á starfi rúmlega 1.600 Réttindaskóla í Bretlandi og Kanada hafa sýnt jákvæðar niðurstöður fyrir börn, kennara og skólastjórnendur. Niðurstöðurnar sýndu jafnframt meiri starfsánægju kennara og aukinn áhuga nemenda.

Hér fyrir neðan má sjá fleiri myndir frá viðurkenningaathöfnun undanfarnar vikur.

Réttindaráð Snælandsskóla í Kópavogi tekur við viðurkenningu í annað sinn.
Frá viðurkenningarathöfn í Lindaskóla í Kópavogi.
Réttindaráð á viðurkenningarathöfn í Kópavogsskóla.
Réttindaráð tók við annarri viðurkenningu Háaleitisskóla í Reykjanesbæ.
Álfhólsskóli í Kópavogi fékk sína fyrstu viðurkenningu í ár.
Barnaþing var í fullum gangi í Grunnskóla Borgarfjarðar þegar skólinn tók við sinni fyrstu viðurkenningu sem Réttindaskóli UNICEF.
Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn