18. ágúst 2023

Versti kólerufaraldur í sex ár herjar á börn í Kongó

Rúmlega 8 þúsund börn smituð á fyrstu sjö mánuðum ársins í Norður-Kivu – Sex sinnum fleiri tilfelli en allt árið 2022

Börn á flótta í Bulengo-búðunum vestur af borginni Goma sækja hreint vatn í vatnsveitu sem UNICEF setti upp. UNICEF vinnur að því að auka aðgengi íbúa að hreinu vatni í skugga kólerufaraldurs.

Átök og aukinn fólksflótti í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó hafa haft þær afleiðingar að þar geisar nú versti kólerufaraldur meðal barna síðan 2017. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greinir frá þessu í dag.

Á landsvísu hafa 31.342 tilfelli af kóleru verið staðfest á fyrstu sjö mánuðum þessa árs, þar af 230 dauðsföll þar sem mörg hinna látnu eru börn. Verst hefur ástandið verið í héraðinu Norður-Kivu, þar sem grunuð og staðfest tilfelli kóleru eru ríflega 21.400, þar af 8 þúsund hjá börnum undir 5 ára, samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Kongó. Ljóst er að um gríðarlega aukningu er að ræða frá því í fyrra þegar tilfellin voru í heildina 5.120 allt síðasta ár

„Umfang kólerufaraldursins og afleiðingar hans ættu að hringja öllum viðvörunarbjöllum,“ segir Shameza Abdulla, yfirmaður neyðarsamhæfingar UNICEF í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. „Ef ekki er gripið til aðgerða strax á næstu mánuðum þá eru miklar líkur á að sjúkdómurinn banvæni breiðist til annarra landshluta sem ekki hafa orðið fyrir barðinu á honum í mörg ár. Hættan er einnig sú að sjúkdómurinn dreifi sér í búðum fólks á flótta sem eru yfirfullar og nálægðin oft mikil. Börn eru sérstaklega viðkvæm fyrir veikindum og líklegri til að láta lífið vegna sjúkdómsins,“ segir Abdulla.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, heldur áfram að beita sér í að skala upp viðbragðs- og forvarnarverkefni gegn kóleru með hreinlætisverkefnum á næstu fimm mánuðum í von um að ná til 1,8 milljóna einstaklinga með hreint vatn, hreinlætisgögn, klósett, lyf og sjúkragögn og barnvænar aðstæður fyrir börn með kóleru. UNICEF bendir hins vegar á að enn vanti mjög upp á fjármagn til að verkefnisins.

Þegar þú ert Heimsforeldri styður þú við mannúðaraðstoð og langtímaverkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í Kongó og yfir 190 öðrum ríkjum um allan heim.SMELLTU HÉR TIL AÐ SKRÁ ÞIG NÚNA.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn