23. september 2019

Í HEIMA var hlustað á börnin sem leitað hafa að vernd hér á landi og þetta er það sem þarf að laga

„Ég var mjög þreytt, mér var kalt og ég var svöng.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtölum UNICEF á Íslandi við 31 barn sem lýstu upplifun sinni af því að hafa komið hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd á árunum 2016 til 2018, mörg þeirra ein og fylgdarlaus.

Fyrsti dvalarstaður barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Íslandi er húsnæði Útlendingastofnunar í Hafnarfirði

23. september 2019 „Ég var mjög þreytt, mér var kalt og ég var svöng.“ Þetta er meðal þess sem fram kom í viðtölum UNICEF á Íslandi við 31 barn sem lýstu upplifun sinni af því að hafa komið hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd á árunum 2016 til 2018, mörg þeirra ein og fylgdarlaus. Í verkefninu HEIMA skoðaði UNICEF móttöku barna út frá sjónarhorni barnanna sjálfra. Í samtölum við börnin og ungmenni á aldrinum 7-21 árs, aðstandendur og aðra kom fram að fyrstu sólarhringarnir á Íslandi eru börnum erfiðir þar sem þau upplifa meðal annars kulda, svengd og þreytu.

Frá árinu 2016 hefur Útlendingastofnun tekið við umsóknum 770 barna, þar af yfir 70 barna sem komu ein til landsins. Aðstæður barnanna hér hafa sætt gagnrýni og skýrsla rannsóknarstofnunar UNICEF árið 2018 leiddi í ljós brotalamir í móttöku barna í leit að alþjóðlegri vernd í öllum ríkjum Norðurlandanna.

Á Íslandi kallaði UNICEF saman sérfræðinga á fund í Hörpu í mars 2018 þar sem niðurstöður skýrslunnar voru ræddar. Eitt af því sem gagnrýnt var í skýrslunni snéri að mati á því sem barni er fyrir bestu og var samhljómur á fundinum um að skýra þyrfti betur framkvæmd slíks mats í tilfelli barna sem sækja um vernd.

Í ársbyrjun 2019 ákváðu UNICEF á Íslandi og Grallaragerðin að leiða saman hesta sína í verkefninu HEIMA þar sem móttaka barnanna yrði skoðuð frá sjónarhorni þeirra sjálfra. Með það að markmiði að geta framfylgt skuldbindingum Íslands um móttöku barna og að það sem barni er fyrir bestu verði haft að leiðarljósi.

Til þess þurfti annars vegar að safna viðhorfum barna og gefa þeim tækifæri á að lýsa upplifun sinni af móttökuferlinu, auk þess að kortleggja ferlið í heild sinni frá sjónarhóli barnsins. Hins vegar var reynt að koma auga á þann vanda sem flest börnin áttu sameiginlegt að hafa upplifað.

Alls tók 31 barn þátt, auk 12 foreldra og 40 starfsmanna sem vinna að móttöku barna. Þá bættust við fleiri sögur barna sem aðrir aðilar höfðu safnað. Í viðtölunum komu fram vísbendingar um þau atriði sem sérstaklega þyrfti að líta til við mat á því sem barni er fyrir bestu. Samtölin við börnin leiddu í ljós áskoranir sem kynntar voru í þverfaglegri vinnustofu með starfsfólki frá 16 mismunandi hagaðilum. Í vinnustofunum voru þróaðar átta lausnir við áskorunum barnanna, þar á meðal móttökuheimili fyrir fylgdarlaus börn, heilsugæsla fyrir alla, upplýsinga- og félagsmiðstöð, listasmiðja og útivistarnámskeið. Afrakstur verkefnisins var kynntur fyrir félagsmálaráðherra í lok júní síðastliðnum og dómsmálaráðherra nú í ágúst. Í kjölfarið ákvað Hafnarfjarðarbær, í ljósi fyrirhugaðs samstarfs við UNICEF í tengslum við Barnvæn sveitarfélög, að þróa áfram tilraunaverkefni sem byggir á niðurstöðum verkefnisins.

Sem fyrr segir lýstu börnin því á áhrifaríkan hátt hvernig fyrstu sólarhringarnir hér á landi eru þeim erfiðir. Þegar lengra líður á ferlið upplifa þau skort á upplýsingum um eigin stöðu, en líka um íslenskt samfélag. Börnin lýstu bágbornum aðstæðum í búsetuúrræðum stjórnvalda og skorti á menntun, heilbrigðisþjónustu og tómstundum fyrstu mánuðina á Íslandi.

Umsóknarferlið einkenndist af bið og óvissu og ekki var rætt við börnin um líðan þeirra, réttindi eða samfélagið á Íslandi. Skólinn reyndist vera börnunum sérstaklega mikilvægur, ásamt því að eignast vini, sinna áhugamálum og finna til öryggis. Aðstæður fylgdarlausra barna reyndust hafa versnað eftir að ný lög tóku gildi sem leyfa barnaverndaryfirvöldum að vista börnin í húsnæði Útlendingastofnunar. Þar nutu börnin ekki nægrar umönnunar eða utanumhalds. Þá bauðst þeim ekki tækifæri til menntunar, tómstunda eða annarrar virkni, auk þess sem ekki hafði í öllum tilvikum verið leitað eftir fósturfjölskyldu eins og lög kveða á um. Börn sem urðu 18 ára eða voru úrskurðuð eldri en 18 ára í aldursgreiningu voru flutt í óöruggar aðstæður í búsetuúrræði með fullorðnum einstaklingum.

Að verkefninu koma UNICEF á Íslandi í samstarfi við hönnuðinn Búa Bjarmar Aðalsteinsson fyrir hönd Grallaragerðarinnar. Þá hlaut verkefnið styrk frá félagsmálaráðuneytinu og var undirbúningur og framkvæmd verkefnisins auk þess með þátttöku og í góðu samstarfi við dómsmálaráðuneytið, Útlendingastofnun, Listaháskóla Íslands, Hönnunarmiðstöð Íslands og Umboðsmann barna. Þar að auki studdu dyggilega við verkefnið Rauði krossinn, þjónustuteymi fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd í Reykjavík, Hafnarfirði og Reykjanesbæ, kærunefnd útlendingamála, Barnaverndarstofa, Barnahús, barnavernd Sandgerðis og Reykjavíkur, Réttur og Bíó Paradís ásamt ómetanlegri aðstoð starfsfólks móttökudeildarinnar við Hvaleyrarskóla, Ernu Huldar Ibrahimsdóttur, Kinans Kadoni, foreldra og síðast en ekki síst barnanna sjálfra.

Ítarlegri upplýsingar um verkefnið HEIMA má finna á vefsíðu þess, www.verkefnidheima.com

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn