20. ágúst 2024

Vara við afleiðingum mpox-faraldurs á börn

Ríflega helmingur allra tilfella apabólu sem greinst hafa í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eru hjá börnum

Mánaðargamalt stúlkubarn með mpox-veiruna í fangi móður sinnar á Kamanyolo-sjúkrahúsinu í Suður-Kivu héraði. Þar eru þær í einangrun vegna smitsins. Mynd/UNICEF

Frá upphafi árs er áætlað að 8.772 börn hafi smitast af mpox-veirunni (einnig þekkt sem apabóla) í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó eða ríflega helmingur allra greindra tilfella. Nýverið var greint frá því að nýtt afbrigði veirunnar hafi greinst sem reynst hefur hættulegra en önnur, sérstaklega fyrir börn, barnshafandi konur og ónæmisbælda.

Samkvæmt nýjustu tölum sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greindi nýverið frá hafa 548 látið lífið í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó vegna faraldursins, þar af er áætlað að 463 þeirra hafi verið börn.

„Þessi nýi mpox-faraldur er enn ein ógn við líf og velferð barna og fjölskyldna sem þegar búa við átök, hafa neyðst til að flýja heimili sín og glíma við ógnir annarra sjúkdómsfaraldra eins og kóleru og mænusóttar,“ segir Gilles Fagninou, svæðisstjóri UNICEF í Vestur- og Mið-Afríku. „Vísbendingar eru um að börn, sérstaklega þau sem glíma við vannæringu eða önnur undirliggjandi veikindi, eru berskjaldaðri fyrir smitum og hugsanlega banvænum afleiðingum veirunnar. Að vernda þau þarf að vera forgangsatriði.“

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er að vinna með Sóttvarnarstofnun Afríku, Alþjóðaheilbrigðismálstofnuninni (WHO) auk samstarfsaðila á borð við USAID og FCDO til að styðja við stjórnvöld í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó. Að auki vinnur UNICEF með stjórnvöldum í Kongó að viðbragðsáætlunum með það fyrir sjónum að bjarga lífi og vernda viðkvæmasta hóp barna í þeim héruðum sem verst hafa orðið úti í faraldrinum.

„Þessi faraldur veldur meira álagi en brothætt heilbrigðiskerfi þjóðarinnar ræður við, meðal annars í kjölfar fyrri sjúkdómsfaraldra. Það verður að bregðast tafarlaust við og fjármagna þessar aðgerðir ellegar verða afleiðingarnar fyrir börn skelfilegar,“ segir Fagninou.

Þegar þú ert Heimsforeldri UNICEF fjarfestir þú með mánaðarlegu framlagi þínu í réttindum allra barna í yfir 190 löndum. Stuðningur þinn skiptir máli.

Skráðu þig í dag.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn