28. október 2020

Vannæring barna í Jemen aldrei verið alvarlegri

Hlutfall barna í Jemen sem þjást af vannæringu er það hæsta sem mælst hefur í hlutum landsins síðan stríðið braust út árið 2015. Meira en hálf milljón barna í suðurhluta landsins mælast nú með bráðavannæringu.

Hlutfall barna í Jemen sem þjást af vannæringu er það hæsta sem mælst hefur í hlutum landsins síðan stríðið braust út árið 2015. Meira en hálf milljón barna í suðurhluta landsins mælast nú með bráðavannæringu og í þeim héruðum þar sem staðan er verst þjást eitt af hverjum fimm börnum af bráðavannæringu. Þetta kemur fram í nýrri greiningu á stöðu fæðuöryggis í landinu. Að greiningunni standa Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP).

Greiningin nær til 133 héraða í suðurhluta Jemen þar sem búa um 1,4 milljónir barna undir fimm ára aldri. Þar kemur í ljós að bráðavannæring hefur aukist um 10 prósent árið 2020. Mesta aukningin er í tilfellum ungra barna sem þjást af alvarlegri bráðavannæringu (SAM), en slík tilfelli hafa aukist um 15,5 prósent á árinu. Það þýðir að 98 þúsund börn undir fimm ára aldri eru í mikilli hættu á að deyja án tafarlausrar meðferðar. Auk þessu eru að minnsta kosti 250 þúsund barnshafandi konur og konur með barn á brjósti vannærðar. Nú er verið að greina tölur frá norðurhluta landsins og búist er við að staðan þar sé jafn alvarleg.

Staðan verið skelfileg of lengi

„Staða barna í Jemen hefur verið skelfileg allt of lengi og er nú verri en nokkru sinni fyrr. Sá árangur sem náðst hefur síðustu ár í að meðhöndla vannærð börn og koma í veg fyrir frekari vannæringu með matvælaaðstoð er í mikilli hættu. Vaxandi átök, hnignun í efnahagslífi landsins, skortur á fjármagni til hjálparstarfs auk áhrifa kórónuveirunnar hefur gert hörmulegt ástand að einni verstu mannúðarkrísu í heiminum,“ segir Steinunn Jakobsdóttir, kynningarstjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF varar við því að ef ekki er brugðist við tafarlaust verði ástandið óafturkræft og líf heillar kynslóðar barna í Jemen í hættu. Vítahringur átaka og hungurs og nú áhrif kórónaveirunnar hefur ýtt enn frekar undir neyð íbúa landsins. Fæðuóöryggi er verulegt, tíðni smitsjúkdóma er há og aðgengi að heilsugæslu, bólusetningum og hreinlætisaðstöðu mjög takmarkað.

Hægt er að meðhöndla og koma í veg fyrir bráðavannæringu en nú þarf aukinn stuðning til að tryggja þeim börnum og konum sem þurfa brýna aðstoð þá meðferð sem þau þurfa. Það þarf að byggja upp og viðhalda matvælakerfi landsins, vernda lífsafkomu fólks og gera íbúum kleift að framleiða, selja og neyta fjölbreyttrar og næringarríkrar fæðu. Auk þess þarf að stórauka aðgerðir til að skima börn fyrir vannæringu og veita þeim börnum sem þjást af vannæringu viðunandi meðferð.

UNICEF á Íslandi stendur fyrir neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen sem nú þurfa hjálp sem aldrei fyrr.

Hægt er að hjálpa með því að senda sms-ið JEMEN í númerið 1900 til að styðja neyðaraðgerðir UNICEF um 1.900 krónur.

Þú getur líka stutt neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi með frjálsu framlagi hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn