11. maí 2021

Utanríkisráðuneytið og UNICEF undirrita þriggja ára samning

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, þakkaði Íslandi fyrir rausnarlegan stuðning þegar hún og Guðlaugur Þór, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, undirrituðu rammasamning til þriggja ára í gær.

Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, þakkaði Íslandi fyrir rausnarlegan stuðning þegar hún og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarmálaráðherra, undirrituðu rammasamning til þriggja ára í gær. Samningurinn gildir til loka árs 2023 og veitir heildræna umgjörð um samstarf Íslands og UNICEF. Ísland leggur áherslu á kjarnaframlag sem veitir UNICEF sveigjanleika til að bregðast við þar sem þörfin er mest hverju sinni. Kjarnaframlag Íslands fyrir árið 2021 nemur 130 milljónum íslenskra króna.

„Stuðningur Íslendinga fyrir börn sem eiga um sárt að binda er gríðarlega mikilvægur á þessum tíma og gerir UNICEF kleift að bregðast við þar sem þörfin er mest,“ sagði Henrietta við undirritunina. Framlagið mun nýtast í ýmis brýn verkefni UNICEF, til dæmis viðbrögð við áhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar á líf barna um allan heim. Kórónaveirufaraldurinn hefur sett árangur síðustu áratuga er varðar bætta heilsu og hag barna, ungmenna og kvenna í hættu og því mikilvægt að alþjóðasamfélagið standi við alþjóðlegar skuldbindingar um að bæta líf kvenna og barna á sama tíma og það berst í sameiningu gegn áhrifum kórónuveirunnar. Skuldbinding Íslands til næstu þriggja ára er því sérstaklega kærkominn.

Barnvæn sveitarfélög til fyrirmyndar

Við undirritunina í gær nýtti Henrietta tækifærið til að hrósa vexti Barnvænna sveitarfélaga á Íslandi og því hversu innblásandi það er að fylgjast með því hvernig Ísland talar máli aukinnar þátttöku barna. Fjórðungur sveitarfélaga á Íslandi vinna nú markvisst að því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í allt sitt starf með stuðningi UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytisins. Henrietta minntist einnig á hversu framarlega Ísland væri í jafnréttisbaráttunni, og voru hún og ráðherra sammála um að valdefling kvenna væri í allra þágu.

UNICEF er skilgreind sem ein af fjórum lykilstofnunum í marghliða þróunarsamvinnu Íslands og er samstarf íslenska ríkisins við UNICEF afar gott og náið. Íslenska ríkið er álitið fyrirmyndar styrktaraðili UNICEF vegna hárra kjarnaframlaga (e. regular resources) og mikils stuðnings miðað við höfðatölu. Við hjá UNICEF á Íslandi þökkum stjórnvöldum innilega fyrir að taka þátt í baráttu okkar fyrir velferð og réttindum barna um allan heim.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn