08. febrúar 2022

Utanríkisráðuneytið styrkir UNICEF til að hraða dreifingu bóluefna

Utanríkisráðuneytið mun verja 250 milljónum króna til að styðja við verkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, til að hraða dreifingu og aðgengi að COVID-19 bóluefnum í þróunarríkjum

Starfsmaður UNICEF kannar hvort barn í bænum Madaya, sem haldið er í herkví, sé vannært. Rauði liturinn táknar að svo sé. Barnið fékk í framhaldinu meðferð gegn vannæringu.

8. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið mun verja 250 milljónum króna til að styðja við verkefni UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, til að hraða dreifingu og aðgengi að COVID-19 bóluefnum í þróunarríkjum. Frá þessu er greint í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag. Ísland hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum til stuðnings baráttu þróunarríkja gegn heimsfaraldrinum og áhrifum hans en auk framlagisins til UNICEF hafa stjórnvöld veitt rúmum milljarði króna til COVAX bóluefnasamstarfsins.

„Alþjóðlegt samstarf um jafnan og sanngjarnan aðgang að bóluefni gegn COVID-19 og dreifingu þeirra á heimsvísu hefur skipt sköpum. UNICEF gegnir þar mikilvægu hlutverki og býr að dýrmætri reynslu um framkvæmd bólusetninga í þróunarlöndum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.

Framlag Íslands til UNICEF er undir formerkjum alþjóðlega bóluefnasamstarfsins ACT-A (Access to COVID-19 Tools Accelerator) en þar gegnir stofnunin lykilhlutverki í því að tryggja að bóluefni sem fjármögnuð eru í gegnum samstarfið komist á leiðarenda. UNICEF sér um flutning á bóluefnum innan þróunarríkja, tæknilega aðstoð við framkvæmd bólusetninga, stuðning við heilbrigðisstarfsfólk og stofnanir, ásamt almenningsfræðslu um bóluefnin.

Ísland hefur einnig stutt einstök verkefni í samstarfsríkjum í tvíhliða þróunarsamvinnu til að sporna gegn víðtækum samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:

„Baráttunni við COVID-19 lýkur ekki fyrr en öll heimsbyggðin er komin í skjól. Nú þegar hefur milljarði skammta af bóluefni verið dreift til lág- og millitekjuríkja í gegnum COVAX samstarfið en betur má ef duga skal. Þessi stóri styrkur íslenskra stjórnvalda skiptir gríðarlega miklu máli á þessum tímapunkti, þegar ekki má missa dampinn heldur þarf að bæta í. Við hjá landsnefnd UNICEF erum stolt og þakklát þessum tíðindum enda bætist styrkurinn við fyrri framlög stjórnvalda til COVAX og sömuleiðis tugi milljóna króna sem safnast hafa frá fyrirtækjum og almenningi á Íslandi til dreifingar á bóluefnum gegn COVID-19 í lág- og millitekjuríkjum.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn