UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, vinnur nú að því með félagsmálaráðuneyti Úkraínu að útvega 102 milljónir Bandaríkjadala í fjárhagsaðstoð til að styðja við 123 þúsund fjölskyldur í viðkvæmri stöðu þar í landi. Þar á meðal eru fjölskyldur með fjögur eða fleiri börn, fjölskyldur sem eiga börn með fötlun eða sérþarfir. Alls um hálf milljón íbúa munu njóta góðs af þessu framtaki.
UNICEF er einnig að styðja verkefni félagsmálaráðuneytis Úkraínu og úkraínsku lestarsamgöngustofnunarinnar (Ukrzaliznytsia) sem miðar að því að tryggja að skemmtilegar og námstengdar gjafir berist börnum í stríðshrjáðum svæðum austurhluta Úkraínu, þar á meðal í borgum eins og Kharkiv og Kherson sem nýlega urðu aðgengilegar á ný. UNICEF hefur lagt til 30 þúsund skólatöskur og skriffæri í verkefnið sem miðar að því að styðja við menntun og andlega heilsu barna.
Von í erfiðum vetri
„Fjölskyldur í Úkraínu hafa haft litla ástæðu til að gleðjast í aðdraganda jólanna en við vonum að með því að styðja við bakið á fjölskyldum í viðkvæmri stöðu með fjárhagsaðstoð og skólagögnum getum við fært foreldrum og börnum von í þessum erfiða vetri,“ segir Murat Sahin, fulltrúi UNICEF í Úkraínu.
Nú þegar veturinn harðnar og árásir á mikilvæga orkuinnviði halda áfram stefnir í þungan vetur hjá almenningi í Úkraínu. Til að veita fjölskyldum aðgengi að hlýjum svæðum þá rekur UNICEF nú yfir 140 samkomustaði sem heita „Spilno“ sem í lauslegri þýðingu er úkraínska orðið yfir að „samveru“. Þessir samverustaðir veita fólki aðgengi að hlýjum barnvænum svæðum þar sem börn geta leikið sér, fengið aðstoð og stuðning, hitt jafnaldra sína en einnig heilsufarsskoðun og aðgengi að annarri félagsþjónstu.
„Á tímum sem þessum þar sem fjölskyldur líta um öxl á það sem á daga þeirra hefur drifið á árinu þá er í okkar huga algjörlega nauðsynlegt að veita smá „venjulegheitum“ í líf þeirra og tækifæri til að gleyma stund og stað,“ segir Sahin. „Líkt og við höfum gert allt árið 2022 mun UNICEF halda áfram að gera allt sem í okkar valdi stendur til að styðja við bakið á úkraínskum börnum og fjölskyldum á nýju ári.“