03. október 2023

UNICEF veitir nauðsynlega mannúðaraðstoð í Armeníu

Frá 29. september síðastliðnum hafa rúmlega 98 þúsund manns verið á flótta í Armeníu sökum hernaðarátaka. Talið er að allt að 29 þúsund þeirra séu börn.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er á vettvangi í Nagorno-Karabakh í ljósi átaka á svæðinu og liðsinnir um 29 þúsund börnum sem eru á flótta.

Harðnandi deilur yfir Nagorno-Karabakh nýverið hafa leitt til versnandi mannúðarástands á svæðinu þar sem yfir 98 þúsund manns hafa flúið heimili sín og ástandið komið sérstaklega illa niður á börnum. Deilurnar sem staðið hafa síðan á síðari hluta tíunda áratugarins hafa kostað tugi þúsunda lífið í gegnum tíðina og gert það að verkum að rúmlega milljón manns hefur endað á vergangi. UNICEF hefur lýst þungum áhyggjum vegna versnandi ástands á svæðinu undanfarið.

UNICEF veitir börnum og fjölskyldum lyf og vistir

Í bænum Goris, suður af fjallasvæðinu Nagorno-Karabakh hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, sett upp öruggt móttökusvæði fyrir fjölskyldur í neyð á flótta. Þar fá allt að 300 börn aðstoð daglega. Einnig hefur öruggu leiksvæði verið komið á fót ásamt því að mæður fá aðstoð við brjóstagjöf, börn fá næringu og fjölskyldur fá nauðsynlegan sálfélagslegan stuðning eftir áföll í kjölfar flótta.

Með þarfir barna og fjölskyldna að leiðarljósi hefur UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, útvegað heilbrigðisyfirvöldum lyf, vistir og önnur hjálpargögn handa börnum og fjölskyldum í neyð.

Hreinlætissett hafa verið afhent yfir 100 fjölskyldum sem hafa verið skráð í samhæfingarmiðstöðinni í Jerevan. Unnið er hörðum höndum að því að flytja frekari mannúðaraðstoð og vistir til Armeníu sem dreift verður til barna og fjölskyldna á flótta í vikunni.

Stuðningur þinn skiptir máli

Þegar neyð sem þessi skapast eru börn ávallt meðal viðkvæmustu hópa þolenda. Þegar þú styrkir neyðarsjóð UNICEF leggur þú þitt af mörkum til að tryggja að hægt sé að bregðast skjótt við neyðaraðstæðum og koma börnum og fjölskyldum til aðstoðar. Þinn stuðningur skiptir máli í þágu barna.

Til að styrkja neyðarsjóð UNICEF getur þú:
Sent SMS-ið: UNICEF í númerið 1900 (2.900 kr).
Gefið frjáls framlög á söfnunarreikning: 701-26-102020 Kennitala: 481203-2950
Gefið frjáls framlög í AUR-appinu í númerið: 123 789 6262

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn