06. maí 2021

UNICEF sendir hjálpargögn til Indlands til að berjast gegn útbreiðslu COVID-19

Ef heimsbyggðin hjálpar ekki Indlandi núna þá munu áhrifin dreifast um svæðið í kring og síðan heiminn allan

„Hörmulegt ástand á Indlandi ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá okkur öllum,“ segir Henrietta Fore, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu Þjóðanna. Hún bendir á að ef heimsbyggðin hjálpar ekki Indlandi núna þá munu áhrifin dreifast um svæðið í kring og síðan heiminn allan og sýna sig í auknum dauðsföllum og stökkbreytingum veirunnar.

Útbreiðsla COVID-19 á Indlandi hefur verið stjórnlaus síðan önnur bylgja faraldursins hófst í febrúar. Dauðsföll á hverjum sólarhring skipta þúsundum og spítalar eru löngu orðnir yfirfullir og geta ekki tekið við fleiri sjúklingum. Afleiðingar faraldursins eru skelfilegar fyrir börn í landinu sem hafa misst foreldra og fjölskyldumeðlimi og komast ekki undir læknishendur ef þau veikjast. Óttast er að á Indlandi verði flest dauðsföll barna undir fimm ára vegna raskana á heilbrigðisþjónustu í landinu ef ekki er brugðist við.

UNICEF og samstarfsaðilar vinna nú í kappi við tímann við að tryggja öryggi barna og fjölskyldna þeirra. UNICEF er með svæðisskrifstofur á 14 stöðum víðsvegar um Indland og hefur útvegað nauðsynleg sjúkragögn, súrefnisbirgðir, yfir tvær milljónir andlitsgrímur, 85 vélar til að skima fyrir veirunni og búnað til súrefnisframleiðslu á spítölum. Auk þess er áhersla lögð á fræðslu um smitvarnir og að styðja uppbyggingu heilbrigðiskerfisins til þess að hægt sé að sinna börnum og mæðrum sem þurfa þjónustu á borð við mæðra- og ungbarnavernd. UNICEF styður auk þess stjórvöld á Indlandi við að skipuleggja bólusetnignaráætlanir til þess að tryggja að bóluefnum gegn COVID-19 verði útdeilt jafnt til allra íbúa landsins.

Brýnna aðgerða er þörf á Indlandi og kallar UNICEF því eftir auknum stuðningi til þess að útvega og koma lífsnauðsynlega búnaði og hjálpargögnum til íbúa Indlands.

Neyðarsjóður UNICEF nýtist í að bregðast við þegar hættuástand skapast eins og á Indlandi, og hægt er að styðja með frjálsu framlagi hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn