28. apríl 2023

UNICEF og Controlant í samstarf með áherslu á bólusetningar barna

UNICEF og Controlant hafa undirritað samning um samstarf til þriggja ára til styrktar börnum með áherslu á bólusetningar sem bjarga lífum.

Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn stofnenda Controlant, og Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

UNICEF og Controlant hafa undirritað samning um samstarf til þriggja ára til styrktar börnum með áherslu á bólusetningar sem bjarga lífum. Controlant mun næstu þrjú árin veita Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna árlegan fjárstyrk, sem rennur til brýnna verkefna sem hafa bein áhrif á líf barna vítt og breitt um heiminn.  

Heilbrigð barnæska er grundvöllur velferðar

Fjárstyrkur Controlant mun renna til kjarnastarfsemi UNICEF, sem er áhrifaríkasta leiðin til þess að nýta fjármuni sem best í þágu barna, bæði til þeirra sem eru í neyð og til verkefna sem stuðla að velferð barna. Með samstarfi geta Controlant og UNICEF þannig haft raunveruleg jákvæð áhrif á líf barna, og stuðlað að heilbrigðri barnæsku sem er grundvöllur þess að þau hafi tækifæri til að læra, þroska og dafna.

Birna, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi:

Það er mikið fagnaðarefni að hefja formlegt samstarf við Controlant. Við deilum hugsjón um jöfn réttindi allra barna og mikilvægi bólusetninga. Fréttir síðustu daga um ójöfnuð í bólusetningum barna víða um heim hafa undirstrikað hversu brýnt er að ekki sofna á vaktinni. Hér skiptir reynsla og árangur UNICEF miklu máli og framlög Controlant í kjarnastarfsemi UNICEF eru ómetanleg. Þá leynist ekki að möguleg samstarfstækifæri UNICEF og Controlant geta verið gríðarmörg. Það eru því spennandi tímar framundan í góðum félagsskap.

Bólusetningar bjarga lífi barna

Samstarf við UNICEF fellur vel að starfsemi Controlant sem er leiðandi á heimsvísu í rauntíma vöktunarlausnum í aðfangakeðju lyfja, þar á meðal bóluefna. Með lausnum sínum stuðlar Controlant að öruggum, traustum, rekjanlegum og sjálfbærum lyfjaflutningum.

UNICEF er stærsti kaupandi bóluefna í heiminum, en samtökin útvega yfir 40% barna í efnaminni ríkjum bólusetningar. Bólusetningarherferðir UNICEF og samstarfsaðila hafa leitt af sér gífurlegan árangur við að fyrirbyggja sjúkdóma og dauðsföll, þar á meðal lífshættulega sjúkdóma og smitsjúkdóma á borð við mænusótt og mislinga. Því fleiri börn sem eru bólusett gegn tilteknum sjúkdómum, því öruggari eru allir íbúar samfélagsins.

Gísli Herjólfsson, forstjóri og einn af stofnendum Controlant:

„Við vitum að bólusetningar bjarga mannslífum og við fögnum því að hefja samstarf með UNICEF með það að leiðarljósi að vernda líf og heilsu barna. Það er okkur heiður að geta lagt alþjóðlegu hjálparstarfi í þágu barna lið með fjármunum, en einnig með þeirri reynslu, þekkingu og tækni sem Controlant og fólkið sem hér starfar býr yfir. Bólusetningar er ein áhrifaríkasta og hagkvæmasta leið til þess að vernda heilsu og fyrirbyggja sjúkdóma, en til þess að bóluefni virki verður það að geymast við rétt hitastig, frá framleiðslu þangað til það kemst á leiðarenda. Við erum stolt að geta lagt UNICEF og bólusetningarátaki þess lið og stuðla þannig að heilbrigði barna um heim allann.“

Í samstarfi sínu munu Controlant og UNICEF leggja áherslu á bólusetningar barna, meðal annars með vitundavakningu um mikilvægi bólusetninga sem ein af áhrifaríkustu leiðum til þess að efla heilsu barna og sem forvörn gegn sjúkdómum og dauðsföll af völdum þeirra.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn