23. mars 2023

UNICEF krefst þess að stúlkur fái að snúa aftur í skóla í Afganistan

Framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sendir byltingarstjórn landsins tóninn

Samaa hefði átt að vera að byrja í 7. bekk á miðskólastigi í Afganistan á þessu ári. En annað árið í röð hefur stjórn Talíbana lagt bann við frekari menntun stúlkna í landinu. Ein af eldri systrum hennar var á öðru ári í háskóla en fær ekki að halda því námi áfram. Mynd/UNICEF

„Það eru gríðarleg vonbrigði að sjá að nú hafi byltingarstjórnin í Afganistan enn eina ferðina neitað stúlkum á miðskólastigi að stunda nám. Þessi tilefnislausa og skammsýna ákvörðun er reiðarslag fyrir drauma og vonir rúmlega milljón stúlkna og enn ein birtingarmynd þess hvernig grafið er undan réttindabaráttu stúlkna og kvenna í landinu,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu um ástandið í Afganistan.

Hún segir að síðastliðin þrjú ár hafi afgönskum stúlkum verið neitað um rétt sinn til menntunar, fyrst vegna heimsfaraldurs Covid-19 og síðan vegna ákvörðunar um að banna skólagöngu stúlkna á miðskólastigi. Þetta sé að hafa verulega neikvæð áhrif á líðan, velferð og framtíð stúlkna í landinu.

„Stúlkur og ungar konar, fatlaðar sem og ófatlaðar, eiga rétt á menntun. Að útiloka stúlkur frá námi mun einnig hafa skaðleg og víðtæk áhrif á bæði efnahag og heilbrigðiskerfi landsins,“ segir Russell.

„UNICEF stendur með hverri einustu stúlku og konu í Afganistan og skorar á byltingarstjórnina að leyfa stúlkum að snúa aftur í skólann og það tafarlaust. Stúlkur verða að fá að halda áfram menntun sinni, standa vörð um andlega líðan sína og leggja sitt af mörkum þjóð sinni til heilla.“

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn