20. mars 2023

Ákall UNICEF fyrir fyrstu vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í 46 ár

Nú þegar leiðtogar heimsins búa sig undir að sækja ráðstefnuna kallar UNICEF eftir brýnni fjárfestingu í aðgerðum til loftslagsaðlögunar vatns-og hreinlætisþjónustu í verst settu samfélögunum  

Í vikunni fer fram fyrsta vatnsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í 46 ár þar sem þjóðarleiðtogar munu fara yfir framfarir og áskoranir í vatns- og hreinlætismálum. Í aðdraganda ráðstefnunnar varpar UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, ljósi á þá miklu ógn sem steðjar að börnum þegar vatnstengdar hamfarir færast í aukana og kallar eftir stóraukinni fjárfestingu í loftslagsaðlögun til að vernda börn í dag, og til framtíðar.

Í dag búa 1,42 milljarðar manna - þar á meðal 450 milljónir barna - á svæðum þar sem skortur á öruggu vatni er mikill eða mjög mikill. Samkvæmt nýrri greiningu UNICEF eru 190 milljónir barna í 10 Afríkuríkjum í mestri hættu vegna þriggja vatnstengdra ógna – ófullnægjandi vatns- og hreinlætisaðstöðu (WASH), vatnsborinna sjúkdóma og loftslagshamfara. 

Þrefalda ógnin er mest áberandi í Benín, Búrkína Fasó, Kamerún, Tsjad, Fílabeinsströndinni, Gíneu, Malí, Níger, Nígeríu og Sómalíu, sem gerir Vestur- og Mið-Afríku að einu verst setta svæði veraldar hvað varðar vatnsöryggi og áhrif loftslagshamfara. Í mörgum þessara landa ógna aukin átök einnig lífi og velferð barna og aðgengi þeirra að hreinu vatni.  

„Afríka stendur frammi fyrir vatnskrísu. Þó að loftslags- og vatnstengdar hamfarir séu að aukast um allan heim er hættan hvergi í heiminum jafnalvarleg fyrir börn,“ segir Sanjay Wijesekera, verkefnastjóri UNICEF. 
„Hrikalegir stormar, flóð og sögulegir þurrkar eru nú þegar að eyðileggja innviði og heimili, menga vatnsauðlindir, skapa fæðuóöryggi og dreifa sjúkdómum. Eins krefjandi og núverandi aðstæður eru, þá stefnir í óefni ef ekki er gripið til brýnna aðgerða.“

Heimurinn er á krossgötum

Þegar kemur að skorti á hreinu vatni eru börn okkar viðkvæmasti hópur. Án öruggs vatns og hreinlætisaðstöðu fjölgar sjúkdómum sem berast með vatni, til dæmis kólera og niðurgangspestir, sem börn eru mun viðkvæmari fyrir. Á hverjum degi deyja yfir 1.000 börn undir fimm ára aldri úr vatnsbornum sjúkdómum sem auðveldlega er hægt að koma í veg fyrir. Víða eru það börnin sem þurfa að ganga langar vegalengdir til að sækja vatn fyrir heimilið, sem setur þau bæði í hættu og gerir það að verkum að þau missa úr skóla. Stúlkur geta einnig misst úr skóla þegar þær hafa blæðingar ef ekki er sérstök hreinlætisaðstaða til staðar. Árið 2030 er búist við að helmingur jarðarbúa búi við vatnsálag og með vaxandi ógnum loftslagsbreytinga, þéttbýlismyndunar og fólksfjölgunar mun samkeppni um vatnsauðlindir aukast en meira.

Í aðdraganda vatnsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna 2023 sem fer fram í New York dagana 22. til 24. mars sendir UNICEF brýnt ákall til leiðtoga heimsins, m.a. um að: 

  • Fjárfesting í málaflokknum verði tafarlaust aukin – þar á meðal með alþjóðlegum loftslagssjóðum.
  • Loftslagsaðlögun vatns- og hreinlætisþjónustu samfélaga verði aukin.
  • Viðkvæmustu samfélögunum verði forgangsraðað í vatns- og hreinlætisverkefnum og stefnumótun.

Ísland bregst við vatnskrísunni með UNICEF

Heimsforeldrar UNICEF á Íslandi leggja sitt af mörkum til verkefna UNICEF um allan heim í þágu vatnsöryggis og hreinlætismála en UNICEF vinur þrotlaust að nýsköpun og samstarfi við sérfræðinga til að tryggja sjálfbært aðgengi samfélaga að vatni. Milljónum barna og samfélaga þeirra er tryggt öruggt drykkjarvatn á ári hverju, meðal annars með því að setja upp vatnsdælur, dreifa vatni setja upp sólknúin vatnskerfi svo fátt eitt sé nefnt.

Íslensk stjórnvöld hafa heldur ekki látið sitt eftir liggja í þessum verkefnum en greint var frá því nýlega að kjarnaframlög til UNICEF hefðu verið stóraukin á þessu ári. Þau framlög styrkja verulega verkefni til að gera viðkvæmum samfélögum kleift að búa sig undir og bregðast við afleiðingum hamfarahlýnunar í nánustu framtíð. Stærstu samstarfsverkefni íslenska ríkisins og UNICEF hafa m.a. verið vatns- og hreinlætisverkefni í samstarfslöndum Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, Malaví, Úganda og nú á þessu ári bættist Síerra Leóne þar við.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn