UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og Inter Miami CF Foundation hafa undirritað þriggja ára samstarfssamning þar sem áhersla verður lögð á menntun barna í fimm ríkjum Suður- og Mið-Ameríku og Karíbahafi. Inter Miami FC Foundation er samfélagssjóður bandaríska knattspyrnufélagsins Inter Miami FC, en meðeigandi félagsins er stórstjarnan David Beckham sem einmitt hefur verið góðgerðarsendiherra UNICEF um árabil.
10 milljónir barna og ungmenna án menntunar
Það fjármagn sem safnast í sjóðinn næstu þrjú ár verður nýtt til að styðja við grunnmenntun barna í erfiðum aðstæðum og ýmist í hættu á að missa af tækifæri til menntunar eða utan skóla í Argentínu, El Salvador, Haítí, Hondúras og Mexíkó. Einnig verður stefnt á að auka aðgengi að stafrænu námi og fjarnámi og tryggja að kennarar hafi aðgengi að viðeigandi þjálfun, aðföngum og fjármagni.
Rúmlega 10 milljónir barna og ungmenna í Rómönsku Ameríku og Karíbahafi eru ekki að fá menntun vegna fátæktar, efnahagsaðstæðna, pólitísks óstöðugleika í heimalandinu eða átaka. Í aðeins þriðjungi ríkja í heimshlutanum ljúka yfir 70 prósent ungmenna framhaldsskólamenntun.
Menntun lykillinn að lífsins draumum
„Frá unga aldri var mér kennt að menntun væri lykillinn að því að láta drauma mína rætast,“ segir Jorge Mas, einn eigenda Inter Miami. „Því miður hafa mörg börn ekki aðgengi að þeirri menntun sem þau þurfa til að láta drauma sína verða að veruleika. Með því að fara í samstarf við UNICEF getur Inter Miami Foundation aukið stuðning sinn við menntaverkefni. Í sameiningu stefnum við á að veita börnum frelsið til að dreyma.“
„Milljónir barna um allan heim eru svipt réttindum sínum til menntunar. Í starfi mínu með UNICEF síðastliðin 20 ár hef ég séð áhrif og mátt menntunar á líf barna, fjölskyldna og samfélaga þeirra,“ segir David Beckham, meðeigandi Inter Miami CF og góðgerðarsendiherra UNICEF. „Ég er stoltur af því að Inter Miami muni styðja UNICEF í því mikilvæga verkefni að skapa sanngjarnari heim, þar sem öll börn fá tækifæri til að vera í skóla, læra og ná markmiðum sínum.“
Messi kom Inter Miami á kortið
Samstarfsverkefnið hófst formlega síðastliðinn laugardag þegar Inter Miami CF lék fyrsta heimaleik tímabilsins. Áhorfendum var þar boðið að láta hluta af öllum viðskiptum þeirra innan leikvangsins renna í sjóðinn með því að námunda upp að næsta Bandaríkjadal. Frekari fjáröflunarverkefni verða síðan reglulega næstu þrjú árin.
„UNICEF hlakkar til þessa mikilvæga samstarfs við Inter Miami CF Foundation og stuðningsfólk félagsins um allan heim næstu árin þar sem við munum öll í sameiningu bæta menntun og tækifæri barna sem standa höllum fæti,“ segir Kitty van der Heijen, aðstoðarframkvæmdastjóri UNICEF.
Inter Miami CF er tiltölulega nýtt knattspyrnufélag, stofnað árið 2018, af David Beckham og Jorge Mas og spilar í bandarísku MLS-deildinni. Það hefur vakið mikla alþjóðlega athygli frá stofnun og á gríðarstóran aðdáendahóp um allan heim, ekki síst eftir að argentínska stórstjarnan Lionel Messi gekk til liðs við félagið árið 2023 auk annarra heimsfrægra knattspyrnumanna.
Stuðningsfólk Inter Miami um allan heim geta styrkt verkefnið hér á vef UNICEF.