„Fyrstu tvo mánuði ársins 2025 hafa alls 13 palestínsk börn verið myrt á Vesturbakkanum. Þar af 7 síðan 19. janúar eftir hernaðaraðgerðir í norðurhluta svæðisins,“ segir í yfirlýsingu Edouard Beigbeder, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku í dag. UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna lýsir miklum áhyggjum af versnandi ástandi á Vesturbakkanum.
„Þann 7. febrúar síðastliðinn lést 10 ára palestínskur drengur af sárum sínum eftir að hafa verið skotinn og tveimur dögum síðar í Nur Shams-búðunum var ólétt kona, gengin 8 mánuði skotin til bana,“ segir í yfirlýsingu Beigbeder.
Óásættanlegt mannfall
Frá 7. október 2023 hafa 195 palestínsk börn og þrjú ísraelsk börn verið myrt á Vesturbakkanum að meðtöldu Austur-Jerúsalem. Það hefur orðið 200% aukning á dauðsföllum palestínskra barna á svæðinu síðustu 16 mánuði, samanborið við mánuðina 16 þar áður.“
„UNICEF hefur þungar áhyggjur af vaxandi ofbeldi, sérstaklega í Jenín. Aukin notkun á sprengjum, loftárásum og eyðileggingu í Jenín, Tulkarem og Tubas Governorates– þar á meðal flóttamannabúðum og öðru þéttbýli– hefur valdið miklum skemmdum á innviðum með tilheyrandi truflunum á vatnsveitu og orku.“
„Börn og fjölskyldur í norðurhluta Vesturbakkans, sérstaklega í búðum fyrir fólk á flótta, halda áfram að búa við erfiðar aðstæður. Þúsundir fjölskyldna hafa neyðst til að flýja vegna nýlegra hernaðaraðgerða, meðal annars í Jenín, Nur Shams og al-Faraa búðunum.“
UNICEF fordæmir allt ofbeldi gegn öllum börnum
„Menntun fyrir nemendur í nærri 100 skólum hefur raskast verulega enda hafa kennarar og nemendur ekki getað sótt skólana með öruggum hætti með skaðlegum áhrifum á líðan þeirra og velferð. Mörg börn á svæðinu þurfa nauðsynlega á sálrænum stuðningi að halda.“
„UNICEF fordæmir allt ofbeldi gegn börnum og kallar eftir tafarlausri stöðvun hernaðaraðgerða á Vesturbakkanum. Vernda þarf hvert einasta barn og óbreytta borgara án undantekninga.“
„Tryggja þarf öruggt og óhindrað aðgengi mannúðarstofnana til að veita lífsnauðsynlega aðstoð og verndarþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Hið síversnandi ástand undirstrikar aðeins mikilvægi þess að alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög séu virt. Og síðast en ekki síst að fundin verði varanleg pólitísk lausn, með stuðningi alþjóðasamfélagsins, sem tryggir að öll börn á svæðinu geti lifað í friði og upplifað öryggi.“
„UNICEF er ávallt reiðubúið ásamt samstarfsaðilum að bregðast við neyð barna núna og til langtíma,“ segir Beigbeder að lokum.