UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur sent 40 tonn af hjálpargögnum í neyðaraðstoð vegna stórs jarðskjálfta sem varð í Dingri-sýslu í Tíbet þann 7. janúar síðastliðinn. Neyðaraðstoðin er send í kjölfar beiðni stjórnvalda í Dingri og nærliggjandi Sajia-sýslu um aðstoð.
Að minnsta kosti 126 létu lífið og hátt í 200 særðust í skjálftanum sem var 6.8 að stærð. 30 þúsund manns þurftu að yfirgefa heimili sín og setjast að í tímabundnum tjaldbúðum og úrræðum. Í þeim tveimur sýslum sem UNICEF veitir nú aðstoð eru 10.000 börn undir sjö ára aldri sem urðu fyrir áhrifum skjálftans. Um er að ræða fjalllendi þar sem hitastigið á nóttunni getur farið niður í 17 gráðu frost, sem tjaldbúðir veita litla vörn gegn.
UNICEF er því að afhenda 40 tonn af hjálpargögnum fyrir nýbura, börn og konur með barni á þessum svæðum. Bleyjur, hlýjan vetrarfatnað, teppi og vetrarjakka fyrir óléttar konur. Fyrsti hluti sendingarinnar barst til Dingri í gær.
„UNICEF bregst skjótt við þegar ósk um aðstoð berst og mun flytja og afhenda eins mikið af hjálpargögnum og þörf er á fyrir börn og fjölskyldur við þessar erfiðu aðstæður auk þess sem við munum styðja við neyðaraðgerðir stjórnvalda. Við munum einnig styðja langtímabata þessara barna og tryggja að þau fái þá sálrænu aðstoð sem þau þurfa til að ná sér,“ segir Amakobe Sandre, fulltrúi UNICEF í Kína.