09. ágúst 2022

UNICEF fagnar vopnahléi á Gaza-svæðinu

Fimmtán börn létu lífið og 150 særðust í árásum síðustu daga

Adele Khodr fagnar því að tekist hafi að semja um vopnahlé á Gaza. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, fagnar því að náðst hafi samkomulag um vopnahlé á Gaza-svæðinu og Ísrael eftir þrjá daga af blóðsúthellingum.

Adele Khodr, yfirmaður UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku, segir að fimmtán börn hafi látið lífið og yfir 150 særst á Gaza-svæðinu auk þess sem 14 börn hafi særst í Ísrael.

„Þegar ofbeldið ríkir eru það börnin sem gjalda fyrir það,“ segir Khodr í tilkynningu vegna málsins.

„Áhrif þess þegar átök stigmagnast með þessum hætti eru gríðarleg og þeirra gætir alltaf löngu eftir að vopnahléi hefur verið lýst yfir. Átakahríð hefur áhrif á réttindi barna og setur þau og fjölskyldur þeirra í bráða lífshættu.“

Khodr segir að vegna eldsneytisskorts hafi rafmagn á Gaza-svæðinu verið skorið niður og afhending þess aðeins fjórar klukkustundir á sólarhring sem hefur mikil áhrif á hvers kyns lífsnauðsynlega þjónustu. Eldsneytissending í dag hafi því verið mikil himnasending og kallar Khodr eftir aukinni mannúðaraðstoð.

„UNICEF er á vettvangi ásamt samstarfsaðilum að dreifa sjúkragögnum fyrir 50 þúsund manns. Við erum að veita sálræna- og félagslega aðstoð og aðstoða börn og fjölskyldur við að finna viðeigandi þjónustu. UNICEF vinnur að því ásamt samstarfsaðilum að koma öllum börnum, á heilu og höldnu, í skólann fyrir lok mánaðarins. UNICEF kallar enn og aftur eftir því að stríðandi fylkingar leiti að langtímalausn á ágreining sínum og friðsamlegri niðurstöðu. Fyrir öll börn og framtíð þeirra.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn