18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið

Eftir 14 ár af stríði þekkja milljónir barna í Sýrlandi ekkert nema átök og hafa glatað sakleysi barnæskunnar allt of fljótt.

Hinn fjögurra ára gamli Diaa tekur þátt í sálfélagslegum stuðningstíma á vegum UNICEF í barnaverndarmiðstöð stofnunnarinnar í Aleppo. „Mér finnst gaman að koma hingað til að leika og hitta vini mína. Þetta er fallegur og skemmtilegur staður.“ Mynd: © UNICEF/UNI704244/

„Eftir 14 ár af stríði þekkja milljónir barna í Sýrlandi ekkert nema átök og hafa glatað sakleysi barnæskunnar allt of fljótt. En það er von og tækifæri til betri framtíðar,“ segir Edouard Beigbeder, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku sem nýkominn er úr heimsókn frá Damascus, Homs, Hama, Aleppo og Idlib þar sem hann sá erfiðar aðstæður barna.

 „UNICEF er sem fyrr á vettvangi að veita lífsnauðsynlega aðstoð og sýrlenskum fjölskyldum stuðning á þessum tímamótum í sögu þjóðarinnar sem er nú á nýrri vegferð. Trúverðug og inngildandi stjórnarskipti verða að forgangsraða í þágu réttinda þeirra 10 milljóna barna sem búa í Sýrlandi,“ segir Beigbeder í yfirlýsingu sinni.

Þörfin mikil eftir áralangt stríð

Hann segir að á ferðalagi sínu hafi hin mikla þörf barna sem mætti honum út um allt verið áberandi. 7,5 milljónir barna þurfi á mannúðaraðstoð að halda, 2,4 milljónir barna eru ekki í skóla og 6,4 milljónir barna þurfa vernd og þjónustu þar sem efnahagsörðugleikar ógna réttindum barna með margvíslegum hætti.

„Heilbrigðisþjónusta er verulega löskuð. Nærri 40% allra sjúkrahúsa og heilbrigðisstofnana eru ýmist að hluta til eða að öllu leyti óstarfhæf. 13,6 milljónir íbúa þurfa vatns og hreinlætisþjónustu, 5,7 milljónir íbúa, þar af 3,7 milljónir barna, þurfa næringarþjónustu. Að styrkja heilbrigðis-, vatns- og hreinlætiskerfi þjóðarinnar verður að gera að forgangsmáli.“

Friðurinn þurfi að sigra

„Friðurinn þarf að hafa yfirhöndina fyrir öll börn Sýrland. Og þrátt fyrir að áskoranirnar framundan séu miklar, þá kallar UNICEF eftir því að allir hópar og fylkingar, sem og alþjóðasamfélagið, grípi til þessara fjögurra aðgerða:

 

·      Halda verður opinberri þjónustu starfandi til að tryggja grunnþjónustu, þar á meðal menntun.

·      Allra leiða verður að leita til að heimila umfangsmikið og kraftmikið mannúðarstarf í landinu og ná stöðugleika í efnahagskerfinu. Bæði opinberi- og einkageirinn verða að vera samstíga í þessu.

·      Auka þarf mannúðaraðstoð tafarlaust, þar á meðal fyrir fólk á flótta, hvort heldur sem þau hafa flúið innanlands eða utan og eru að snúa aftur heim. Óhindrað aðgengi þarf að tryggja til að veita fjölskyldum þessa aðstoð.

·      Allir hópar og fylkingar þurfa að virða skyldur sínar gagnvart alþjóðlegum mannúðar- og mannréttindalögum til að tryggja vernd almennra borgara. Alltaf.

Árið 2025 verði loksins friðsælt ár

„UNICEF mun hvergi hvika í því verkefni sínu að vera til staðar og veita börnum Sýrlands og fjölskyldum þeirra nauðsynlega aðstoð og stuðning. Á þessu ári höfum við náð til 4,6 milljóna einstaklinga með menntun, næringu, heilbrigðisþjónustu, barnavernd, vatn, hreinlæti og félagsþjónustu. Í ljósi vendinga nýverið hefur UNICEF sett af stað 185 færanleg heilbrigðisteymi, veitt 10 þúsund börnum í viðkvæmri stöðu aðgengi að menntun og tryggt rúmlega 3 milljónum einstaklinga aðgengi að hreinu vatni, auk sjálfélagslegrar þjónustu, ráðgjafar og fræðslu. “

„Með þessu getur Sýrlandi byrjað að stíga skref fram á við og í átt að viðvarandi friði. Ég vona innilega að við sjáum þetta verða að veruleika svo árið 2025 verði loksins, friðsamt ár fyrir börn í Sýrlandi.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn