18. júlí 2023

UNICEF: Árangur náðst í bólusetningum barna eftir sögulega afturför vegna COVID-19

Ný gögn frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sýna jákvæða þróun í bólusetningum barna í heiminum eftir nokkurra ára bakslag vegna heimsfaraldurs COVID-19.

 

Ný gögn frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, og Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sýna jákvæða þróun í bólusetningum barna í heiminum eftir nokkurra ára bakslag vegna heimsfaraldurs COVID-19. Í fyrra bentu samtökin á að heimsfaraldur COVID-19 hefði ýtt undir mestu afturför í bólusetningum barna í þrjá áratugi og því jákvætt að sjá þróunina vera að snúast við á ný.

Alþjóðlega náðu almennar bólusetningar til fjögurra milljóna fleiri barna árið 2022 í samanburði við árið á undan. Í mörgum efnaminni ríkjum heims er hlutfallið þó enn undir því sem það var fyrir heimsfaraldurinn sem setur börn í hættu vegna útbreiðslu lífshættulegra sjúkdóma.

Samkvæmt nýjum gögnum sem WHO og UNICEF birtu í dag misstu 20,5 milljónir barna af einni eða fleiri almennum bólusetningum árið 2022 samanborið við 24,5 milljónir barna árið 2021. Hlutfall barna sem hefur misst af einni eða fleiri bólusetningum er þó enn hærra en fyrir heimsfaraldur, þegar talan var 18,4 milljónir barna.

 

Drengur í Pakistan bíður með mömmu sinni eftir að fá bólusetningu gegn mislingum

Þrátt fyrir að þessar tölur séu uppörvandi þá segja meðaltöl á heimsvísu ekki alla söguna og fela þær alvarlegt og viðvarandi misrétti milli efnameiri og efnaminni ríkja heims. Af þeim 73 löndum sem sáu verulegan samdrátt í almennum bólusetningum á meðan á heimsfaraldrinum stóð hafa 34 þeirra staðið í stað eða haldið áfram að lækka. Sem dæmi má nefna að bólusetningar gegn mislingum hafa ekki náð sér jafn vel á strik eins og aðrar bólusetningar, sem setur 35,2 milljónir barna í hættu á að smitast af sjúkdómnum. Þegar lönd og svæði dragast afturúr þá eru það börnin sem borga fyrir það.

Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, segir að á bak við þessa jákvæðu þróun meigi einnig sjá alvarleg viðbörunarmerki. „Þar til fleiri lönd ná að fylla í eyðurnar í almennum bólusetningum munu börn allsstaðar vera í hættu á að smitast af eða deyja af völdum sjúkdóma sem hægt er að koma í veg fyrir. Veirur eins og mislingar þekkja engin landamæri.“

UNICEF, Barnahjálp sameinuðu þjóðanna, hefur í áratugi lagt kapp við að sinna bólusetningum barna gegn lífshættulegum sjúkdómum. Árlega styðja UNICEF og samstarfsaðilar bólusetningar hjá hátt í helmingi allra barna í heiminum í yfir 100 löndum. Heimsfaraldur COVID-19 hafði áhrif á bólusetningar barna nánast um allan heim, sérstaklega vegna álags á heilbrigðiskerfi, skorts á heilbrigðisstarfsfólki og vegna sóttvarnaraðgerða. Börn sem fæddust rétt fyrir og í faraldrinum misstu því mörg af fyrstu bólusetningunum sínum.

UNICEF undirstrikar nú þá brýnu þörf fyrir að stórauka enn frekar átak í bólusetningum barna, auka fjármagn sem rennur til bólusetninga, byggja traust til bólusetninga og styrkja bólusetningarkerfi um allan heim.

Hægt er að skoða gögnin í rannsókn WHO og UNICEF hér.

Framlög HEIMSFORELDRA UNICEF nýtast meðal annars í að bólusetja börn gegn lífshættulegum sjúkdómum. Takk kæru Heimsforeldrar fyrir að hjálpa okkur að bjarga börnum um allan heim, allt árið um kring.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn