20. janúar 2020

Stöðvum feluleikinn: UNICEF á Íslandi afhenti ráðherra 11 þúsund undirskriftir í minningu Guðrúnar Ögmundsdóttur

UNICEF á Íslandi afhenti í dag Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, undirskriftir 11.430 Íslendinga úr nýlegu ofbeldisvarnarátaki samtakanna sem bar yfirskriftina Stöðvum feluleikinn. Afhendingin fór fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

20. janúar 2020 UNICEF á Íslandi afhenti í dag Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, undirskriftir 11.430 Íslendinga úr nýlegu ofbeldisvarnarátaki samtakanna sem bar yfirskriftina Stöðvum feluleikinn. Afhendingin fór fram í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Undirskriftirnar voru afhentar í nafni Guðrúnar Ögmundsdóttur sem lést þann 31. desember síðastliðinn en hún var stjórnarkona og síðar stjórnarformaður UNICEF á Íslandi um árabil. Átakið Stöðvum feluleikinn byggir á skýrslu um ofbeldi gegn börnum sem UNICEF gaf út árið 2013. Guðrún Ögmundsdóttir var mikil hvatningarmanneskja um útgáfu þeirrar skýrslu og úrbætur í málaflokknum.

Átakið fór af stað í fyrravor til að vekja athygli á ofbeldi gegn börnum á Íslandi í kjölfar birtingar UNICEF á Íslandi á nýjum tölum í málaflokknum. Þar kom fram að af rúmlega 80 þúsund börnum sem búa á Íslandi verði rúmlega 13 þúsund þeirra fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára afmælisdag sinn. Sum hver daglega. Í ljósi þessarar svörtu niðurstöðu kallaði UNICEF á Íslandi eftir vitundarvakningu og aðgerðum.

Safnað var undirskriftum þar sem fólk skuldbatt sig til að bregðast við ef það hefði grun um eða yrði vitni að ofbeldi gegn barni. Þá fylgdi undirskriftinni áskorun til stjórnvalda um að axla ábyrgð og standa vaktina gegn ofbeldi. Þá var þess krafist að stjórnvöld stofnuðu Ofbeldisvarnarráð og að öll sveitarfélög landsins yrðu að taka upp skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi.

Þegar UNICEF á Íslandi kynnti stöðu mála í ofbeldi gegn börnum ákvað Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra að bregðast við. Ráðherra heyrði ákall UNICEF á Íslandi og almennings og kynnti á fundinum í dag áform um aðgerðir í málaflokknum með stofnun Miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum.

Markmið miðstöðvarinnar verður að halda utan um upplýsingar er varða ofbeldi gegn börnum og vera stjórnvöldum til ráðgjafar og leggja fram tillögur að mótun stefnu og aðgerða í þessum efnum og fylgja þeim eftir. Rekstur miðstöðvarinnar verður í höndum Barnaverndarstofu sem fær aukna fjármuni til verksins.

„Það var afar ánægjulegt að geta afhent ráðherra þennan mikla fjölda undirskrifta í dag í minningu Guðrúnar Ögmundsdóttur, að fjölskyldu hennar viðstaddri og heyra hann síðan tilkynna um stofnun Miðstöðvar um ofbeldi gegn börnum,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

„Þetta er gleðidagur fyrir baráttufólk fyrir réttindum barna og sýnir að við getum knúið á um jákvæðar breytingar í sameiningu. Miðstöð um ofbeldi gegn börnum mun geta sinnt mörgum af þeim verkefnum sem við kölluðum eftir í formi svokallaðs ofbeldisvarnarráðs“.

Í lok athafnarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag flutti Bergsteinn hjartnæma minningarræðu um Guðrúnu Ögmundsdóttur áður en hann afhenti Gísla Arnóri Víkingssyni, eiginmanni hennar, þakklætisviðurkenningu undirritaða af Henriettu Fore, framkvæmdastjóra UNICEF, fyrir störf Guðrúnar í þágu barna heimsins.

Lesa má nánar um Miðstöð um ofbeldi gegn börnum á vef ráðuneytisins.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn