08. október 2024

UNICEF afhent sjúkragögn handa tveimur milljónum í Líbanon

Heilbrigðiskerfið komið að þolmörkum þar sem tala særðra hækkar á degi hverjum

Flugvél með tugi tonna af sjúkragögnum affermd á alþjóðaflugvellinum í Beirút. Mynd/UNICEF

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur afhent 167 tonn af sjúkragögnum sem duga fyrir tvær milljónir íbúa vegna átakanna í Líbanon, þar af 67 tonn bara síðustu þrjá daga. Þeim fjölgar dag frá degi sem þurfa á læknisaðstoð að halda vegna sára sinna.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti Líbanon hafa 2.083 látið lífið síðastliðið ár vegna stigmögnunar við landamæri Líbanon og Ísrael, þar af 127 börn. Flest þessara dauðsfalla hafa orðið síðastliðnar vikur.

Sjúkragögnin innihalda meðal annars neyðargögn fyrir bráðatilfelli, nauðsynjar fyrir fæðingar- og ljósmóðuraðstoð, lyf og skyndihjálpartöskur fyrir viðbragðsaðila og sjúkrabíla svo fátt eitt sé nefnt.“

Þessum sjúkragögnum er nú verið að dreifa á sjúkrahús, heilbrigðisstofnanir og til færanlegra heilsugæsluteyma í Líbanon.

Auk sjúkragagna hefur UNICEF nú útvegað og dreift 135 tonnum af öðrum hjálpargögnum og mannúðaraðstoð innan Líbanon síðan 23. september síðastliðinn.

UNICEF ítrekar ákall sitt um tafarlaust vopnahlé og að stríðandi fylkingar geri allt til að virða alþjóðleg mannréttindalög um að hlífa börnum og nauðsynlegum grunninnviðum sem og að tryggja öruggt og óhindrað aðgengi mannúðaraðstoðar.


Fleiri
fréttir

14. október 2024

„Börn hefja engin stríð“
Lesa meira

10. október 2024

370 milljónir stúlkna í heiminum beittar kynferðisofbeldi fyrir 18 ára aldur
Lesa meira

08. október 2024

UNICEF afhent sjúkragögn handa tveimur milljónum í Líbanon
Lesa meira
Fara í fréttasafn