06. júní 2023

UNICEF aðstoðar eftir að stífla í Dnípró-fljóti var sprengd

Snemma í morgun varð Kakhovka stíflan á Dnípró-fljóti í Úkraínu fyrir árás.

Snemma í morgun varð Kakhovka stíflan á Dnípró-fljóti í Úkraínu fyrir árás. Um er að ræða stóra og mikilvæga stíflu til raforkuframleiðslu í héraðinu. Samkvæmt tilkynningu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er hjálparstarf þegar hafið á svæðinu og teymi frá UNICEF að vinna að því að greina og meta aðstæður. Mikil flóðahætta skapast skiljanlega vegna þessa, rafmagnsleysi auk þess sem þúsundir neyðast til að flýja heimili sín. 

Stíflan sem um ræðir var byggð árið 1956 á Dnípró-fljóti og er hluti af vatnsaflsvirkjuninni í Kakhovka. Uppistöðulónið veitir einnig vatni til Krímskaga og kjarnorkuversins í Zaporizhzhia sem er á yfirráðasvæði Rússa. Þaðan fá nærliggjandi svæði einnig drykkjarvatn sitt svo UNCIEF varar líka við skorti á neysluvatni íbúa. 

Þegar þetta er skrifað vinnur landsskrifstofa UNICEF að því að aðstoða stjórnvöld við að rýma íbúasvæði sem í hættu eru vegna þessa. 

Áætlað er að 16 þúsund manns hið minnsta þurfi að flýja heimili sín. Lestir verða sendar af stað til að aðstoða við fólksflutninga nú um hádegi og önnur eftir hádegi. 

UNICEF hefur brugðist við með því að tryggja hjálpargögn á borð við hreint drykkjarvatn, hreinlætispakka, vatnshreinsitöflur og sérstaka mannúðarpakka fyrir börn á flótta.

Aðgerðamiðstöð hefur verið sett upp í lestarstöðinni í Kherson og færanlegum teymum komið fyrir á nokkrum stöðum auk þess sem fjárhagsaðstoð verður veitt barnafjölskyldum í héraðinu sem orðið hafa fyrir tjóni vegna flóða. 

Ástandið á svæðinu er enn í framvindu og frekari upplýsingar veittar eftir því sem líður á daginn. 

Við minnum á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi vegna stríðsins í Úkraínu hér á heimasíðu okkar.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn