05. júlí 2021

UNICEF á Íslandi og Kvika endurnýja samstarfssamning

UNICEF á Íslandi og Kvika endurnýja samstarfssamning

UNICEF á Íslandi og Kvika banki hafa undirritað samstarfssamning til tveggja ára og er samstarfið við Kviku því orðið eitt farsælasta fyrirtækjasamstarf samtakanna hér á landi. Kvika hefur verið aðalsamstarfsaðili UNICEF á Íslandi á sviði bankaþjónustu frá árinu 2011 og er auk þess sérstakur velunnari Heimsforeldra.

Kvika niðurgreiðir bankakostnað Heimsforeldra og gerir UNICEF á Íslandi þannig kleift að nýta söfnunarfé sitt enn betur í þágu réttinda og velferðar barna um allan heim. Kvika veitir UNICEF bestu mögulegu kjör á bankaþjónustu og skuldbindur sig til að styðja við rekstur og fjáröflun UNICEF á Íslandi, bæði með beinum framlögum og öðrum samstarfsleiðum. Á Íslandi eru um 26.000 Heimsforeldrar og eru þeir hvergi hlutfallslega fleiri en hér á landi.

„Það er mikil ánægja að endurnýja samstarfssamninginn við Kviku. Þau hafa reynst ómetanlegir bakhjarlar um árabil og stuðningur þeirra verið hornsteinn í góðum árangri Heimsforeldra UNICEF, sem berjast fyrir réttindum barna á heimsvísu og bæta heiminn til lengri tíma. Það veitir ekki síst af um þessar mundir þegar börn eru svipt grunnrétti sínum til heilsu, menntunar og öryggis vegna COVID-19,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.

Á síðastliðnum árum hefur Kvika auk þess stutt við ýmis verkefni UNICEF á Íslandi og má þar nefna Dag rauða nefsins, neyðarsöfnun fyrir börn í Jemen og Stöðvum feluleikinn, átak UNICEF gegn ofbeldi gegn börnum á Íslandi.

„Við erum stolt að því að hafa verið styrktaraðili UNICEF á Íslandi síðustu 10 ár. UNICEF á Íslandi hefur gegnt leiðandi hlutverki í hjálparstarfi barna, bæði hérlendis og erlendis, og okkur þykir ánægjulegt að hafa geta lagt þeim málefnum lið. Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs“, segir Íris Arna Jóhannsdóttir, forstöðumaður skipulagsþróunar samstæðu hjá Kviku.

Það voru Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi og Íris Arna Jóhannsdóttir, forstöðumaður skipulagsþróunar samstæðu Kviku sem undirrituðu samninginn sem gildir til næstu tveggja ára.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn