21. júní 2022

UNICEF á Íslandi fagnar athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna

Enn þarf margt að bæta til að innleiðing Barnasáttmálans geti talist fullnægjandi á Íslandi

UNICEF á Íslandi fagnar ábendingum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna við fimmtu og sjöttu skýrslu Íslands um framkvæmd Barnasáttmálans sem nefndin gaf út nýverið.  Barnaréttarnefndin er eftirlitsaðili með innleiðingu Barnasáttmálans og skoðar stöðu mannréttinda barna hjá aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna, meðal annars á Íslandi. Fyrirtaka Íslands hjá nefndinni fór fram í byrjun maí.  

UNICEF á Íslandi ásamt átta öðrum félagasamtökum unnu sérstaka viðbótarskýrslu til Barnaréttarnefndarinnar sem var kynnt árið 2020. Þessi samtök eru Barnaheill – Save the Children á Íslandi, Heimili og skóli, Landssamtökin Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Rauði krossinn á Íslandi, Samfés, Ungmennafélag Íslands, UNICEF á Íslandi og Öryrkjabandalagið. Auk þess var sérstök barnaskýrsla unnin af börnum á Íslandi um málefni sem á þeim brenna og kynnt fyrir nefndinni.  

„Við erum mjög ánægð með þessar lokaathugasemdir nefndarinnar. Mikið af okkar áhyggjuefnum voru tekin til greina, sérstaklega hvað varðar geðheilbrigðisþjónustu, ofbeldi gegn börnum, málefni barna á flótta og mismunun og góðar tillögur að umbótum kynntar,“ segir Eva Bjarnadóttir, teymisstjóri innanlandsmála hjá UNICEF á Íslandi og einn höfunda viðbótarskýrslunnar. „Við erum sérstaklega ánægð með tillögur um betra aðgengi barna að kvörtunarleiðum hér innanlands og stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunnar. Það myndi auka mjög möguleika barna á að leita réttar síns og tryggja betra eftirlit með réttindum þeirra.“  

Athugasemdir nefndarinnar varða margvísleg málefni, meðal annars að auka þurfi þátttöku barna í málum sem þau varðar, til dæmis með því að koma á fót ungmennaráðum í öllum sveitarfélögum, að bæta þurfi móttöku barna á flótta, sérstaklega fylgdarlausra barna, bregðast verði tafarlaust við löngum biðlistum eftir geðheilbrigðisþjónustu og bæta þjálfun allra hlutaðeigandi í að meta hvað er barni fyrir bestu. Auk þess er Ísland hvatt til þess að setja kyn- og jafnréttisfræðslu inn í aðalnámsskrá á öllum skólastigum og í kennaranámi og tryggja að hún feli í sér vel samræmda fræðslu fyrir börn á ólíkum aldri.  

UNICEF á Íslandi hvetur alla til að kynna sér athugasemdirnar og tillögur til úrbóta hér.  

Margt jákvætt en mikið rými til að gera betur 

Frá því að Ísland skilaði síðustu skýrslum sínum til Barnaréttarnefndarinnar hefur margt þróast í rétta átt og Barnaréttarnefndin hrósar Íslandi meðal annars sérstaklega fyrir að hafa lögfest Barnasáttmálann árið 2013. Auk þess lyftir nefndin því upp að þingsályktunartillagan um Barnvænt Ísland hafi verið samþykkt árið 2021, að Ísland hafi fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að Ísland eigi aðild að samningum um réttarstöðu ríkisfangslausra og þær breytingar sem gerðar hafa verið á barnaverndarlögum síðustu ár. 

Síðast var skýrsla lögð fyrir nefndina fyrir átta árum og bent er á margar jákvæðar umbætur sem hafa átt sér stað síðan þá. Nefndin bendir þó á að enn þurfi margt að bæta til þess að börn á Íslandi geti notið allra þeirra réttinda sem getið er um í Barnasáttmálanum og að innleiðing Barnasáttmálans geti talist fullnægjandi hér á landi. 

Nokkur af helstu atriðum úttektarinnar sem UNICEF á Íslandi vill sérstaklega benda á:  

1. Ofbeldi gegn börnum: 

Barnaréttarnefndin leggur til að Ísland bæti rannsóknir á öllum ofbeldismálum gegn börnum, þar með talið vanrækslu, kynferðisofbeldi og stafrænu ofbeldi. Bent er á að enn skorti áreiðanlegar tölfræðilegar upplýsingar um ofbeldi gegn börnum þó að rannsóknir bendi til hárrar tíðni ofbeldis, og að einnig skorti upplýsingar um rannsóknir og saksókn í málum um kynferðisbrot og misnotkun sem varða börn. Bent er á að fötluð börn, börn umsækjenda um alþjóðlega vernd og börn sem tilheyra minnihlutahópum séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu og að bið eftir fullnægjandi aðstoð, þar á meðal í Barnahúsi, sé of löng. Þá vanti nægt fjármagn til fullnægjandi framkvæmdar á aðgerðaráætlun gegn ofbeldi á landsvísu.  

UNICEF á Íslandi tekur heilshugar undir þessar tillögur en samtökin fóru í stórt ofbeldisvarnarátak árið 2019 þar sem skorað var á stjórnvöld að axla ábyrgð og standa vaktina gegn ofbeldi, að stofnað yrði sérstakt Ofbeldisvarnarráð og að öll sveitarfélög andsins yrðu að taka upp skýra viðbragðsáætlun gegn ofbeldi. 

2. Geðheilbrigðismál barna: 

UNICEF á Íslandi hefur miklar áhyggjur af stöðu geðheilbrigðisþjónustu barna hér á landi. Samtökin sendu af þessu tilefni ákall til stjórnvalda fyrir alþingiskosningarnar árið 2021. UNICEF á Íslandi tekur því undir áhyggjur Barnaréttarnefndarinnar af vaxandi tíðni kvíða og þunglyndis meðal barna og löngum biðlistum eftir geðheilbrigðisþjónustu. Mælt er með því að Ísland efli geðheilbrigðisþjónustu við börn, að tryggður sé nægilegur fjöldi hæfra heilbrigðisstarfsmanna, svo sem barnasálfræðinga og geðlækna, og að hugað sé sérstaklega að viðkvæmum hópi barna, svo sem barna af erlendum uppruna, hinsegin barna, transbarna, intersex barna og fatlaðra barna.  Auk þess er bent á að bæta þurfi samhæfingu á milli sveitarfélaga og viðkomandi ráðuneyta til að veita geðheilbrigðisþjónustu á öllum skólastigum og innan samfélagsins. 

3. Börn á flótta: 

Einn viðkvæmasti hópur barna hér á landi eru fylgdarlaus börn á flótta. Í skýrslu nefndarinnar er miklum áhyggjum lýst yfir því að fylgdarlaus börn þurfi oft að dvelja í móttökumiðstöð Útlendingastofnunnar svo mánuðum skiptir án viðeigandi umönnunar barnaverndar. Einnig er notkun tanngreininga til að meta aldur barna sem sækja hér um vernd gagnrýnd, en samtök á borð við UNICEF og Rauða krossinn hafa lengi bent á að það eigi að hætta að nota slíkar líkamsskoðanir við aldursgreiningu. UNICEF á Íslandi vann verkefnið HEIMA ásamt Grallaragerðinni árið 2019 þar sem móttaka barna sem sækja hér um alþjóðlega vernd var skoðuð út frá sjónarhóli barnsins og kynnti UNICEF tillögur og lausnir fyrir viðeigandi ráðuneytum í kjölfarið.  

4. Fátækt og mismunun: 

Nefndin ítrekar að rannsaka þurfi mismunun á grundvelli kynþáttar, kyns og efnahagslegrar stöðu barna. Það þurfi að styrkja enn frekar stuðning við barnafjölskyldur, þar á meðal að tryggja að öll börn búi í viðunandi húsnæði, að félagslegar bætur til einstæðra foreldra verði auknar og að bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað. Auk þess þarf að tryggja að fötluð börn njóti þeirra tækifæra og mannréttinda sem þau eiga rétt á til jafns við önnur börn og að börnum sem búa á tveimur heimilum sé ekki mismunað með aðgengi að hjálpartækjum og viðeigandi þjónustu.   

Í skýrslu UNICEF á Íslandi frá 2021 um efnislegan skort barna á Íslandi kom einmitt fram að ójöfnuður ríkir meðal barna á Íslandi og að mörg börn á búa við skort á sviði tómstunda. Mestur er skorturinn á barnmörgum heimilum, á heimilum þar sem atvinnuþátttaka foreldra mælist lág og meðal barna sem búa í leiguhúsnæði.  

Tillögur Barnaréttarnefndarinnar eru fjölmargar og ítarlegar og ekki hægt að telja þær allar upp hér. Við viljum því benda áhugasömum að kynna sér úttektina og skorum á íslensk stjórnvöld að gera tillögurnar aðgengilegar fyrir börn og fullorðna. Barnaréttarnefndin býður Íslandi að skila sjöundu og áttundu skýrslu sinni til nefndarinnar í nóvember árið 2027 og þarf hún að innihalda upplýsingar um eftirfylgni á þeim athugasemdum sem koma fram í þessari úttekt.  

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn