26. apríl 2022

Unglingar sinna sjálfboðastarfi við að leiðbeina fjölskyldum á flótta

Í borginni Lviv er hin 16 ára gamla Solomia meðal fjölmargra sjálfboðaliða sem taka á móti og aðstoða þúsundir sem flýja stríðið í Úkraínu

Solomia (16) vinnur sem sjálfboðaliði á lestarstöðinni í Lviv.

Á hverjum degi koma þúsundir úkraínskra flóttamanna á lestarstöðina í borginni Lviv. Flest eru þau konur og börn. Sum bíða eftir að komast í lest áfram til annarra hluta Úkraínu eða yfir landamærin, á meðan aðrir leita skjóls í Lviv.

Sjálfboðaliðar eins og hin 16 ára gamla Solomia leggja sig fram við að taka á móti fólkinu sem þangað kemur, bjóða þeim mat og ráðleggja þeim um næstu skref.

Vildi leggja sitt af mörkum

„Ég gleymi aldrei 24. febrúar,“ segir Solomia um upphaf stríðsátakanna. „Ég talaði við vini um stríðið og þremur tímum síðar var það byrjað. Ég vissi ekkert hvað ég átti að gera. Ég og pabbi minn pökkuðum saman dótinu okkar og sátum svo bara á gólfinu á jarðhæðinni. Þar vörðum við fyrsta hálfa deginum. En svo ákvað ég að mig langaði að gera eitthvað, ég gat ekki bara setið kyrr,“ segir Solomia sem býr í Lviv. Hún lét verða sitt fyrsta verk að fara í verslun þar sem verið var að gefa fólki á flótta föt. Því næst bauð hún sig fram til að starfa á borgarskrifstofunni við að safna saman nauðsynlegum skjölum og gögnum.

Hún vildi hins vegar vinna beint með fólkinu í neyð og það leiddi hana að lestarstöðinni þar sem hún vinnur nú sem sjálfboðaliði við að aðstoða fólk á flótta.

Solomia tekur á móti og aðstoðar fólk á flótta.

Óraunverulegt að þetta sé að gerast

„Ég trúi ekki enn að þetta sé að gerast. Að þetta sé ekki eitthvað úr sögubókunum í skólanum. Þegar ég sé með eigin augum fólk koma sært frá öðrum borgum þá finn ég til ábyrgðar um að gera mitt til að hjálpa,“ segir Solomia.

Þökk sé samstarfsverkefni UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og sjálfboðaliðaþjónustu Úkraínu (UVS) getur Solomia og 100 þúsund aðrir ungir sjálfboðaliðar samræmt aðgerðir sína á vettvangi nær og fjær. Tekið á móti og unnið úr beiðnum frá íbúum á átakasvæðum og deilt mikilvægum upplýsingum með þeim sem á þurfa að halda vegna átakanna.

Sprengjum rigndi úr flugvél

Olha, Danylo og 10 ára gamall sonur þeirra Tymur eru meðal þeirra sem þurfa nauðsynlega á hjálp að halda. Á brautarpalli lestarstöðvarinnar í Lviv felur drengurinn ungi sig logandi hræddur á bak við foreldra sína.

„Þeir vörpuðu sprengjum á okkur úr flugvélum,“ segir Olha. „Sonur okkar varð gríðarlega hræddur. Enn í dag verður hann mjög hræddur við hvers kyns hávaða.“

Solomia er vön því að heyra sorgarsögur sem þessar. Hún vinnur sex tíma á dag um helgar en styttri vaktir á virkum dögum þar sem hún sinnir áfram námi sínu og vinnur að eigin netsíðuverkefni sem kallast SafeRoom. Þar sem ungmennum býðst sálrænn stuðningur.

Þúsundir streyma frá átakasvæðum daglega.

Vill breyta heiminum

Fyrir stríðið hafði Solomia ætlað að læra alþjóðasamskipti í háskóla en hefur nú skipt um skoðun. Hún er staðráðin í að halda áfram sjálfboðavinnu, leggja sitt af mörkum og á endanum, hjálpa til við uppbygginguna í Úkraínu.

„Þú þarft ekki að vera stjórnmálamaður til að breyta heiminum,“ segir hún. „Kannski get ég orðið góður blaðamaður. En sem stendur, þá er ég hér.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn