16. október 2023

Tíminn er á þrotum fyrir börn á Gaza

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausu vopnahléi og öruggu aðgengi mannúðarstarfsfólks að Gaza svo hægt sé að halda áfram neyðaraðstoð fyrir börn á svæðinu

TIL AÐ STYRKJA NEYÐARSÖFNUN FYRIR BÖRN Í GAZA

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur.  
Frjáls framlög: 701-26-102015 Kennitala: 481203-2950 

Hundruð þúsunda barna og fjölskyldna þeirra leggja nú leið sína frá norðurhluta Gaza vegna ótta við áframhaldandi árásir á svæðinu. Vopnuð átök hafa staðið yfir á Gaza síðan 7. október. Síðan þá hafa hundruð barna verið drepin og þúsundir til viðbótar særst í átökunum.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausu vopnahléi en 1,1 milljón manna, þar sem næstum helmingur eru börn, eru á svæðinu. Börn og fjölskyldur á Gaza eru einnig nánast uppiskroppa með mat, vatn, rafmagn, lyf og er öruggur aðgangur að sjúkrahúsum afar takmarkaður vegna sprengjuárása og skorti á birgðum vegna átakanna.

„Ástandið á Gaza er hörmulegt. Sprengjuárásirnar eru endalausar og við horfum fram á gríðarlega aukningu barna og fjölskyldna á flótta. Það eru engir staðir öruggir á Gaza,“ sagði Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. „Tafarlaust vopnahlé og aðgangur mannúðarstarfsfólks að svæðinu er nauðsynlegt til þess að tryggja aðstoð til barna og fjölskyldna á Gaza. Við þurfum tafarlaust vopnahlé til þess að tryggja óhindrað og öruggt aðgengi að börnum í neyð, sama hver þau eru og hvar þau eru. Börn á Gaza þurfa neyðaraðstoð og hver mínúta skiptir máli,“ sagði Russell.

Heimili og mikilvægir innviðir hafa verið lagðir í rúst og yfir 423 þúsund manns hafa þegar flúið heimili sín. Fólk hefur leitað skjóls, ýmist í skólum eða sjúkrahúsum en tvö helstu sjúkrahús Gaza eru þegar orðin rafmagnslaus og yfirfull af slösuðum óbreyttum borgurum.  

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er á svæðinu og veitir mannúðaraðstoð

Starfsfólk UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, heldur áfram að bregðast við þörfum barna víðs vegar um Gaza-svæðið, en aðgangur verður ífellt erfiðari og hættulegri. Mannúðarstarfsfólk hefur erið hvatt til þess að yfirgefa Gaza, en starfsfólk UNICEF mun dvelja í suðurhluta Gaza til þess að veita börnum í neyð nauðsynlega aðstoð.  

UNICEF hefur einnig dreift birgðum á svæðinu og unnið að því að halda einu starfhæfu vatnshreinsistöð Gaza gangandi. Verksmiðjan sér 75 þúsund manns fyrir vatni en án eldsneytis mun starfsemin fljótlega stöðvast. Einnig hefur UNICEF dreift læknisbirgðum til sjúkrahúsa en í ljósi fjölda særðra eru lyf og aðrar birgðir fljótt að klárast.

„Börn eiga skilið vernd öllum stundum og eiga aldrei að þurfa að þjást vegna vopnaðra átaka. Við ítrekum ákall framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um að afturkalla skipun um flutning óbreyttra borgara frá norðurhluta Gaza og að öryggi og vernd óbreyttra borgara verði sett í forgang. Hvert barn á ekkert minna skilið,“ sagði Russell.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn