30. maí 2023

„Tími er lúxus sem börn í Súdan búa ekki við“

UNICEF lyft grettistaki í að útvega súdönskum börnum neyðaraðstoð – Fregnir af því að hundruð barna hafi látið lífið í hörðum átökum síðustu vikur

Ung stúlka fær næringarríkt jarðhnetumauk í færanlegri næringarmiðstöð UNICEF í Súdan.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir að 13,6 milljónir barna í Súdan þurfi á mannúðaraðstoð að halda nú þegar gríðarhörð átök hafa geisað í landinu í sex vikur. Talsmaður UNICEF segir að hundruð barna hafi látið lífið og þúsundir til viðbótar særst á þessum tíma. Ekki sé þó hægt að staðfesta þær tölur, sökum þess hversu hörð átökin eru. UNICEF hefur þó lyft grettistaki við þessar erfiðu aðstæður og heldur áfram að veita börnum þá aðstoð sem þau þurfa á að halda.

Meðal þess sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, hefur áorkað ásamt samstarfsaðilum undanfarið er að:

  • Flytja 2.300 tonn af hjálpargögnum til flóttafólks í Madani og héraða víðs vegar um landið. Meðal annars sjúkragögn, næringu, vatn, hreinlætisþjónustu og námsgögn.
  • Viðhalda bólusetningarverkefnum í 12 héruðum með því að útvega og dreifa bóluefnum og viðhalda flutningsleiðum. Að minnsta kosti 244 þúsund börn hafa fengið bólusetningu við lömunarveiki síðan átök hófust 15. apríl síðastliðinn.
  • Haldið 80 prósent næringarmiðstöðva starfhæfum um allt land fyrir börn sem glíma við alvarlega vannæringu.
  • Dreift miklu magni af næringarríku jarðhnetumauki, sjúkra- og hreinlætisgagna til ríflega 300 munaðarlausra barna í Khartoum sem án aðstoðar eru dauðvona vegna næringarskorts.
  • Útvegað 104 þúsund einstaklingum aðgengi að hreinu vatni með vatnsflutningabílum, viðhaldi og starfrækslu vatnsveitukerfa.
  • Veitt a.m.k. 5.500 börnum og forráðamönnum sálræna aðstoð. Viðhaldið og starfrækt 356 námsmiðstöðvar í 10 ríkjum, þar á meðal Vestur-Darfur, og tryggt tæplega 17 þúsund stúlkum og drengjum barnvænt og öruggt svæði til að stunda nám og leika sér.

Ástandið dauðadómur ef ekkert er að gert 

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna kallar eftir auknu fjármagni til að mæta þeim lífsnauðsynlegu verkefnum sem börn í Súdan þurfa á að halda. James Elder, talsmaður UNICEF, var ómyrkur í máli á blaðamannafundi í dag.

„Allar þær ógnir sem að súdönskum börnum steðja eiga á hættu að verða dauðadómur. Ég biðst forláts á því segja hlutina svo hreint út, en tími er lúxus sem börn í Súdan búa ekki við. Ef ég orða hlutina öðruvísi þá er ég að svíkja þann ískyggilega raunveruleika sem þau búa við,“ segir Elder.

„Það er einnig mikilvægt að það komi afdráttarlaust fram að skilvirkasta leiðin til að tryggja öryggi og velferð þessara barna liggur í höndum þeirra sem ber lagaleg skylda til að vernda þau. UNICEF krefst þess því enn einu sinni að stríðandi fylkingar axli ábyrgð og verndi súdönsk börn og hlífi nauðsynlegum grunninnviðum sem þau reiða sig á til að lifa.“

UNICEF á Íslandi stendur fyrir neyðarsöfnun fyrir börn í Súdan. Þú getur stutt hana hér.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn