01. mars 2021

Tímamót í baráttunni gegn COVID-19

Tímamót í baráttunni gegn kórónaveirunni urðu í morgun þegar fyrstu bólusetningarnar voru gefnar í Ghana og á Fílabeinsströndinni. Um er að ræða bóluefni á vegum COVAX-samstarfsins.

Tímamót urðu í baráttunni gegn kórónaveirunni í morgun þegar fyrstu bólusetningarnar voru framkvæmdar í Ghana og á Fílabeinsströndinni. Á föstudaginn síðasta fékk Fílabeinsströndin 504.000 skammta af COVID-19 bóluefni og 505.000 sprautur í fyrstu úthlutun á vegum COVAX-samstarfsins. Ghana hafði fyrr í vikunni fengið 600.000 skammta af bóluefni. Skammtarnir verða meðal annars notaðir til að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk, félagsráðgjafa, kennara og áhættuhópa.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, gegnir lykilhlutverki í COVAX-samstarfinu sem tryggja á jafna dreifingu bólu­efn­is gegn kórónaveirunni meðal efnaminni ríkja heims­ins. COVAX-samstarfið vinnur bæði með stjórnvöldum og framleiðendum til að tryggja sanngjarnan aðgang að bóluefnum meðal ríkja heimsins. UNICEF hefur í áratugi verið leiðandi í bólusetningum og er stærsti einstaki kaupandi bóluefna í heiminum. Á hverju ári bólusetja UNICEF og samstarfsaðilar hátt í helming allra barna í heiminum gegn lífshættulegum sjúkdómum og nýtir UNICEF nú sérþekkingu sína til að takast á við þetta sögulega verkefni.

Markmið COVAX-samstarfsins er að tryggja 2 milljarða skammta af bóluefnum fyrir lok ársins 2021. Eftir margra mánaða undirbúning er margt búið að gerast síðustu daga og bóluefni, sprautur og annar búnaður farinn að berast. Afhending bóluefnanna á Fílabeinsströndinin og í Ghana markar upphafið af fyrstu alþjóðlegu úthlutun bóluefna gegn kórónaveirunni. Fleiri lönd munu bætast í hópinn á næstu dögum og vikum og verður áætlun um næstu úthlutun gefin út á morgun.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn