Eitt af hverjum fimm börnum í Úkraínu hefur misst náinn ættingja eða vin síðan stríðsátök hófust en í dag eru þrjú ár síðan innrás varð gerð í landið. Þetta kemur fram í nýrri rannsóknarkönnun sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, greinir frá í dag.
„Alltof lengi hefur dauði og eyðilegging umlukið líf barna í Úkraínu. Þessu ofbeldi hefur fylgt gríðarlegur ótti og þjáning hjá börnum auk þess sem það hefur skaðað og raskað daglegu líf barn á alla vegu,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu.
Smelltu hér til að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Úkraínu.
Þetta þriðja ár af stríði reyndist enn mannskæðara fyrir börn en árið þar áður. Fjöldi barna sem særðist eða lét lífið í árásum jókst um rúmlega 50% árið 2024 samanborið við árið 2023. Tala látinna og særðra barna í Úkraínu stendur nú í 2.520 síðan í febrúar 2022 og er talið líklegt að raunveruleg tala sé enn hærri, þar sem þetta séu aðeins staðfest tilfelli Sameinuðu þjóðanna.
Missir, skortur, ógn og hörmungar
Rúmlega 1.600 menntastofnanir og nærri 790 heilbrigðisstofnanir hafa verið skemmdar eða eyðilagðar síðastliðin þrjú ár. Stríðið hefur kallað missi og skort yfir börn og ungmenni Úkraínu og hefur tekið djúpstæðan toll á lífi þeirra og velferð, bæði líkamlega og andlega. Í þrjú heil mikilvæg mótunarár þessara barna og ungmenna hefur stríð verið alltumlykjandi í lífi þeirra á meðan yngstu börnin þekkja ekkert annað líf en að búa við ógn og hrylling stríðs.
Í könnunum á andlegri líðan ungmenna kemur fram að nærri þriðjungur þeirra upplifir depurð og vonleysi yfir því að geta ekki lengur stundað áhugamál sín og aðra félagslega samveru með eðlilegum hætti. Einangrun er stór áhrifavaldur á versnandi andlegri líðan barna og ungmenna sem mörg verja fleiri klukkutímum í neðanjarðarbyrgjum. Nærri 40 prósent barna stundar aðeins fjarnám eða blöndu af fjarnámi og hefðbundnu námi. Að meðaltali hafa börn misst tvö ár af lestrarkennslu og eitt ár af stærðfræði.
UNICEF vinnur að aðstoð og uppbyggingu
UNICEF vinnur ásamt samstarfsaðilum að því að veita börnum víðs vegar um Úkraínu nauðsynlegan stuðning, á borð við heilbrigðisþjónustu, hreint vatn, beinan fjárstuðning, menntun og barnaverndarþjónustu.
Á sama tíma starfar UNICEF með stjórnvöldum að tryggja enduruppbyggingu og langtímauppbyggingu, með því að styrkja þá mikilvægu innviði sem börn og fjölskyldur reiða sig á. Það felur meðal annars í sér að börn hafi aðgengi að barnaverndar- og félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntun og að þessi kerfi geti veitt skjóta og góða grunnþjónustu.
Í dag eru 6,86 milljónir íbúa Úkraínu skráðir sem fólk á flótta á heimsvísu og nærri ein milljón þeirra er í Póllandi. Fyrir börn á flótta er aðgengi að skóla og menntun áskorun. Helmingur barna á skólaaldri er ekki skráður í nám í skólakerfi gestgjafaþjóðarinnar með tilheyrandi áhrifum á tækifæri þeirra til náms og félagslegra samskipta. UNICEF heldur áfram að vinna með stjórnvöldum þessara ríkja, sveitarfélaga og svæða til að styrkja þessi kerfi og tryggja börnum á flótta þá menntun, heilbrigðisþjónustu og vernd sem þau eiga rétt á.
„Alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög kveða á um að börn skuli alltaf vernda fyrir áhrifum stríðs. En umfram allt þurfa börn í Úkraínu varanlegan frið og tækifæri til að þrífast og blómstra.“
Smelltu hér til að styðja neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn í Úkraínu.
Skýrsluna í heild sinni má lesa hér.