05. maí 2023

UNICEF: Súdan á barmi meiriháttar hörmunga

UNICEF hefur fengið upplýsingar um að 190 börn hafi látið lífið og 1.700 særst síðan átök hófust fyrir þremur vikum – Átökum og ofbeldisverkum verður að linna þegar í stað

UNICEF hefur komið upp barnvænum svæðum þar sem tekið er á móti börnum á flótta frá stríðsástandinu í Súdan. Meðal annars í Egyptalandi þar sem meðfylgjandi mynd er tekin en þúsundir súdanskra flóttamanna hafa flúið yfir landamærin til Egyptalands síðustu daga. MYND/UNICEF.

„Ástandið í Súdan er á barmi meiriháttar hörmunga og börn bera þungan af átökunum. Við höfum ekki getað staðfest áætlaðar tölur vegna þess hversu hörð átökin eru, en UNICEF hefur fengið upplýsingar um að 190 börn hafi látið lífið og 1.700 særst síðan átök hófust fyrir þremur vikum. Þessum átökum og ofbeldisverkum verður að linna þegar í stað,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í yfirlýsingu.

Russell segir UNICEF krefjast þess að stríðandi fylkingar virði alþjóðleg mannúðarlög og tryggi að börn séu ekki í skotlínu átaka. Það feli meðal annars í sér að láta af árásum á heilbrigðisstofnanir, skóla, vatnsveitur og hreinlætisþjónustu sem og aðra innviði sem börnum eru nauðsynlegir.

„Börn hafa mátt búa við skelfingarástand og ofbeldisverk í nærri þrjár vikur og ótal fjölskyldur eru nú á flótta í leit að öryggi í Súdan og nágrannalöndum. Starfsfólk mannúðarstofnana hefur sætt árásum og farartækjum, hjálpargögnum og birgðum verið rænt eða þau eyðilögð. Þessar árásir hafa grafið undan getu okkar til að ná til barna í Súdan með lífsbjargandi aðstoð, heilbrigðisþjónustu, næringu, vatni og hreinlætisþjónustu. Það er algjörlega nauðsynlegt að stríðandi fylkingar virði alþjóðalög og tryggi öryggi hjálparstarfsfólks til að veita almenningi í landinu þá mannúðaraðstoð sem þörf er á. Við krefjumst þess að ótakmarkaður og óhindraður innflutningur á nauðsynlegum hjálpargögnum, birgðum og annarri mannúðaraðstoð verði tryggður – burtséð frá því hver fer með stjórn á viðkomandi svæðum,“ segir Russell.

Auk þess að kalla eftir tafarlausu vopnahléi krefst UNICEF pólitískrar langtímalausnar á neyðarástandinu svo börn í Súdan geti alist upp í umhverfi friðar og horft bjartsýn til framtíðar.

UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun fyrir börn í Súdan. Þú getur lagt þitt af mörkum hér.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn