26. júní 2024

Súdan: 400 börn drepin síðustu vikur

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausum aðgerðum fyrir þær milljónir barna í Súdan sem búa nú við bráða neyð vegna borgarastyrjaldar í landinu.

UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, kallar eftir tafarlausum aðgerðum fyrir þær milljónir barna í Súdan sem búa nú við bráða neyð vegna borgarastyrjaldar í landinu. Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, heimsótti Súdan í vikunni þar sem rúmlega 400 börn hafa verið myrt síðustu sjö vikurnar í átökum. Hungursneyð vofir yfir súdönskum börnum.

Áætlað er að 14 milljónir barna í Súdan þurfi á mannúðaraðstoð að halda, eða rúmlega helmingur allra barna í ríkinu, auk þess sem nær öll börn ganga ekki í skóla lengur. Enn fjölgar tilkynningum um alvarleg réttindabrot gegn börnum og er tala látinna barna nú 3.800 síðan skálmöld braust út á ný í Súdan í apríl á síðasta ári.

 Hvergi fleiri börn á flótta

Hvergi í heiminum eru fleiri börn á flótta en í Súdan og eftir heimsókn sína til borgarinnar Port Sudan í vikunni sagði Russell að heimsbyggðin verði að vita af þeim hörmungum sem börn í Súdan eru að upplifa og að stríðandi fylkingar verði að binda enda á ofbeldisverk stríðsins.

Nær 9 milljónir barna eru að glíma við fæðuóöryggi og skort á aðgengi að hreinu vatni. Nærri 4 milljónir barna undir fimm ára aldri glíma við bráðavannæringu og þar af eru 730 þúsund þeirra í bráðri lífshættu. Við þessar aðstæður hafa sjúkdómsfaraldrar blossað upp og dreifa sér á greiðlega milli yfirfullra íbúa í flóttamannabúðum víðs vegar í og við átakasvæði.

Banvæn blanda

„Þessi átök eru að skapa banvæna blöndu af fólksflótta, sjúkdómum og hungri og kjöraðstæður fyrir hungursneyð af völdum stríðsátaka með tilheyrandi dauða og eymd,“ segir Russell sem sat á mánudag fund í Naíróbí í Kenía á vegum USAID, Save the Children og UNICEF, þar sem hún kallaði eftir tafarlausum aðgerðum til að bjarga lífi súdanskra barna.

 

UNICEF kallar eftir því að:

  • Stríðandi fylkingar hætti grófum og alvarlegum brotum gegn börnum, þar á meðal morðum, kynferðisofbeldi, neyða þau til þátttöku í átökum eða árásum á skóla og sjúkrahús. Almenna borgara og borgaralega innviði verður að vernda öllum stundum.
  • Vopnahlé verði komið á og viðeigandi skref tekin í átt að viðvarandi friði.
  • Tafarlausu og öruggu aðgengi fyrir mannúðaraðstoð verði komið á þvert á landamæri og átakasvæði, þar á meðal í Darfur, Al Jazirah, Khartoum og Kordofan.
  • Mannúðarstarf í þágu almennings og barna verði að fullu fjármagnað.

 

UNICEF kallar eftir 840 milljónum dala í fjármögnun til að geta afhent hjálpargagnapakka fyrir barnavernd, menntun, heilbrigðisþjónustu, næringu, vatn, hreinlætisþjónustu og peningastyrki fyrir börn í Súdan.

„Börn sem flúið höfðu heimili sitt í Súdan og yfir landamærin sögðu mér öll að þau vildu aðeins tvennt. Og þau sögðu öll það sama. Þau vilja komast heim og þau vilja að stríðinu ljúki,“ segir Russell að lokum.


Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn