02. september 2024

Stuðningur við börn á flótta í íslensku skólakerfi 

UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) hafa í samstarfi gefið út rafrænt fræðsluefni um börn á flótta

Frá málþinginu sem haldið var á fimmtudag í Norræna húsinu. Myndir/Laufey

UNICEF á Íslandi, Rauði krossinn á Íslandi og Barna- og fjölskyldustofa (BOFS) hafa í samstarfi gefið út rafrænt fræðsluefni um börn á flótta. Fræðslan er hugsuð fyrir kennara og starfsfólk skóla á öllum skólastigum barna og er ætlað að stuðla að betri skilningi á lífi barna á flótta, m.a. réttindum þeirra, áhrif áfalla á líðan og hegðun, og hvernig ný lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna geta stutt við börn sem hingað koma á flótta.

Fræðslan er aðgengileg á vefsíðu BOFS skólans hér: 

 
Skortur á stuðningi annað áfall  
Í tilefni af útgáfu fræðslunnar fór fyrir helgi fram mikilvægt málþing um börn á flótta og íslenskt skólakerfi þar sem reynslumiklir aðilar tóku til máls. Þar sagði Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica, reynslusögu sína af íslensku skólakerfi en hún kom hingað til lands frá Palestínu 16 ára gömul og kláraði hér  háskólanám. Af sögu hennar má draga mikinn lærdóm. Þrautseigja hennar og seigla komu henni þangað sem hún er í dag en hún mætti mörgum hindrunum, og upplifði sig einangraða og utanveltu ekki síst vegna mikillar áherslu á að hún kláraði samskonar íslenskunám og íslenskir nemendur. Það var ekki fyrr en með tilkomu Keilis háskólabrúar að litið var til hennar styrkleika og móðurmál hennar, arabíska, var álitinn styrkleiki og metinn sem slíkur. Það tók hana 10 ár að klára framhaldsskólann og skortur á stuðningi og skilningi reyndist mikil vonbrigði og í raun annað áfall ofan í þau áföll sem því fylgja því að búa í stríðshrjáðu landi.  

Fida Abu Libdeh, framkvæmdastjóri GeoSilica.

Mikilvægt að veita mjúka lendingu 

Þá sögðu Dagbjört Ásbjörnsdóttir og Saga Stephensen, verkefnastjórar fjölmenningar á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, frá Skóla- og fjölskyldumiðstöð, farsælu úrræði fyrir börn á flótta sem komið hefur verið á laggirnar í Reykjavík; fyrir úkraínsk börn og fjölskyldur þeirra árið 2022 og svo palestínsk börn og fjölskyldur þeirra árið 2024. Áhersla er lögð á að bjóða þessum hópum að vera saman og með foreldrum sínum þar sem þeim er kennt á íslenskt samfélag þar sem tekið er tillit til getu og úthalds hópsins. Þannig er markmiðið að skapa ljúfa og örugga byrjun fyrir barnafjölskyldur í nýju samfélagi. Vonir standa til að önnur sveitarfélög geti boðið upp á svipuð úrræði.  

Mismunun til staðar gagnvart börnum án kennitölu  
Í pallborðsumræðum sagði Páll Ólafsson, framkvæmdastjóri farsældarsviðs BOFS, frá því hvernig farsældinni er ætlað að taka utan um börn á flótta en það er mismunandi hversu langt sveitarfélögin eru komin í að innleiða farsældina. Það er í það minnsta alveg ljóst að börn á flótta eiga sama rétt og önnur börn á stuðningi samkvæmt farsældarmódelinu. Jóna Dís Bragadóttir, skólastjóri Tækniskólans, sagði frá því hvernig Tækniskólinn tekur vel á móti nemendum með flóttabakgrunn en þar er það ekki krafa að nemendur séu með íslenska kennitölu. Alda Áskelsdóttir, sérfræðingur hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, greindi frá reynslu sinni af því að vinna með börnum á flótta inni í grunnskólanum. Hún minnti á mikilvægi þess að byggja upp traust og að þeir sem vinni með börnum með þennan bakgrunn, setji sig inn í hugarheim barnanna til að skilja hegðun þeirra. Hún sagði áhrifamikla sögu af dreng sem hún kenndi sem flýði alltaf í undirgöng í frímínútum því hann óttaðist sprengjuregn undir berum himni. 

Alda benti einnig á gagnlegan vef þar sem verkfæri er að finna fyrir kennara og nálgast má hér.  

Í umræðum kom fram að margt hefur breyst frá því árið 1996 þegar Fida hóf hér nám framhaldsskóla en þó er ennþá margt í hennar sögu sem enn á við í dag. Bent var á þá mismunun sem viðgengst hér á landi þar sem börn sem eru án kennitölu fá ekki sömu þjónustu og önnur börn, t.d. varðandi leikskólapláss, þátttöku í frístundastarfi og fleira. Einnig kom fram að sérstaklega þarf að huga að þeim hópi sem hefur náð 18 ára aldri en þarf enn stuðning til þess að klára sitt framhaldsskólanám.   

Mikilvægt er að halda áfram umræðunni um þennan aðkallandi málaflokk og vinna saman að lausnum.  

Upptöku frá málþinginu má finna hér.  

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn