22. desember 2022

Stuðningur þinn skipti máli á árinu 2022

Sjáðu dæmi um árangur UNICEF á árinu sem er að líða

Nú þegar árið er að líða getum við litið til baka á þau umfangsmiklu verkefni sem UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, tókst á við á árinu 2022. Áskoranir sem við stóðum frammi fyrir og árangur sem náðist í þágu barna um allan heim, þökk sé ómetanlegri hjálp frá fjölda einstaklinga, fyrirtækja og stjórnvalda sem studdu starf UNICEF á árinu. 

Áætlað var að 274 milljónir einstaklinga þyrftu á mannúðaraðstoð að halda í ársbyrjun 2022. Þegar leið á árið fjölgaði nauðstöddum gríðarlega vegna stríðsins í Úkraínu, auknu matvælaóöryggi, áhrifum loftslagsbreytinga og efnahagslegra áfalla. 

Áhrif loftslagsbreytinga voru stærsti áhrifavaldurinn á þörfina fyrir mannúðaraðstoð á árinu. Hamfarir og veðuröfgar komu verst niður á samfélögum sem voru í viðkvæmri stöðu fyrir. Í Pakistan til að mynda þurftu 20,6 milljónir íbúa, þar af 9,6 milljónir barna, á mannúðaraðstoð að halda vegna hamfaraflóða. 

Sjúkdómar dreifðu sér milli landa með ógnarhraða. Á árinu komu upp kólerusmit í 29 ríkjum, þar af 14 sem höfðu ekki þurft að glíma við slíkan faraldur árið áður. Í september 2022 braust út ebólu-faraldur í Úganda sem hafði veruleg áhrif á alla heilbrigðisþjónustu þar í landi.    

Átök skapa neyð. Það er gömul saga og ný að átök koma verst niður á þeim sem minnst hafa með þau að gera. Fjöldi ríkja þar sem átök geisuðu hefur ekki verið meiri í 30 ár. Og árásir á börn eru enn daglegt brauð. Frá Úkraínu til Jemen og Eþíópíu til Nígeríu, og víðar, hafa stríðandi fylkingar ítrekað virt að vettugi þá ófrávíkjanlegu reglu að vernda börn og almenna borgara. 

Aldrei fleiri börn á flótta. Nærri 37 milljónir barna um allan heim eru á vergangi vegna átaka, ofbeldis og áhrifa loftslagsbreytinga. Á Sahel-svæði Afríku, eru 2,4 milljónir á vergangi, rúmlega helmingur þeirra konur og börn. 7 þúsund skólum hefur verið lokað vegna átaka, sem setur börn í þegar viðkvæmri stöðu í margþætta hættu á frekari réttindabrotum. Eins og að vera gert að taka upp vopn í stríði eða neydd í barnahjónabönd. 

Í mannúðarákalli UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, fyrir árið 2022 var fjárþörf ársins vegna mannúðarverkefna metin á 9,4 milljarða Bandaríkjadala. Í lok október 2022 hafði sú tala hækkað í rúma 11 milljarða dala. Það er fjárhæð að slíkri stærðargráðu að vart þýðir að snara henni yfir í íslenskar krónur til að öðlast samhengi. En það er vel rúmlega 1.500 milljarðar króna. 

Þó langstærstur hluti fjárframlaga UNICEF árið 2022 hafi komið frá opinberum aðilum þá er vert að nefna að hlutdeild einkageirans í stuðningi við UNICEF tvöfaldaðist næstum milli ára. Munar þar mestu um þann ótrúlega stuðning sem UNICEF fékk vegna verkefna sinna í Úkraínustríðinu, bæði innan Úkraínu og við flóttamannaaðstoð í nágrannaríkjum. 

Dæmi um árangur UNICEF á árinu 2022:  

  • 23,8 milljónir barna voru bólusett gegn mislingum; 
  • 2,6 milljónir barna á aldrinum 6-59 mánaða sem glímdu við alvarlega rýrnun (alvarlegasta stig vannæringar) fengu næringarmeðferð; 
  • 28 milljónir barna fengu aðgengi að formlegri og/eða óformlegri menntun; 
  • 13 milljónir barna, ungmenna og forráðamanna fengu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og sálrænni aðstoð í samfélögum sínum; 
  • 25.9 milljónir einstaklinga fengu aðgengi að fullnægjandi magni af hreinu vatni til neyslu og heimilisnota; 
  • Við náðum til 557 milljónir einstaklinga með skilaboðum um forvarnir og aðgengi að þjónustu; 
  • 4,2 milljónir kvenna, stúlkna og drengja fengu aðgengi að fræðslu, forvörnum og úrræðum tengdum kynbundnu ofbeldi; 
  • 24,9 milljónir heimila fengu beina fjárhagsaðstoð í gegnum úrræði studd af viðkomandi stjórnvöldum. 

Þökk sé stuðningi þínum við UNICEF á Íslandi á árinu þá átt þú beinan þátt í þeim árangri sem UNICEF á heimsvísu hefur náð í þágu barna sem á þurfa að halda. Takk fyrir að skipta sköpum í lífi barna í neyð. Næsta ár stefnir í að verða fullt af enn stærri áskorunum og áframhaldandi fjárfesting þín í lífi og velferð barna hefur því aldrei verið mikilvægari. Við munum aldrei hætta að gera heiminn að betri stað, fyrir öll börn. Vertu með okkur í því verkefni. 

 

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn