17. október 2022

Stríðið í Úkraínu fjölgað fátækum börnum um fjórar milljónir

Ný rannsókn UNICEF birt á Alþjóðadegi helguðum útrýmingu fátæktar

Innrás Rússa í Úkraínu hefur steypt fjórum milljónum barna í Austur-Evrópu og Mið-Asíu í fátækt, sem er aukning um 19 prósent frá árinu 2021. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri rannsókn UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, sem birt var í dag í tilefni af Alþjóðadegi helguðum útrýmingu fátæktar. UNICEF varar við margvíslegum alvarlegum áhrifum stríðsins á börn í nánustu framtíð.

Í skýrslunni er rýnt í gögn frá 22 ríkjum sem sýna að börn bera mestan skaða af efnahagsþrengingum sem stríðið hefur í för með sér. Af þessum fjórum milljónum barna eru nær þrír fjórðu þeirra í Rússlandi, hálf milljón barna frá Úkraínu og rúmlega 100 þúsund í Rúmeníu.

„Fyrir utan hinn augljósa hrylling sem fylgir stríði í formi mannfalls og eyðileggingar þá eru efnahagsáhrif stríðsins í Úkraínu að hafa skelfileg áhrif á börn í austurhluta Evrópu og Mið-Asíu,“ segir Afshan Khan, svæðisstjóri UNICEF í Evrópu og Mið-Asíu í tilkynningu og kallar eftir auknum stuðningi við börn og fjölskyldur þeirra. Framtíð þeirra og líf séu í húfi.

Afleiðingar fátæktar barna eru víðtækari en bara fjárhagsleg vandræði fjölskyldna. Aukning þessi gæti nefnilega haft í för með sér að 4.500 börn látið lífið fyrir eins árs afmæli sitt og jafngildir því að 117 þúsund börn neyðist til að hætta í námi á þessu ári.

Lesa má skýrsluna í heild sinni og nánar um niðurstöðurnar hér á vefsíðu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn