28. febrúar 2025

Stríðið í Líbanon hafði skaðleg áhrif á líðan, næringu og menntun barna

Ný velferðarkönnun UNICEF sýnir að þrátt fyrir vopnahlé haldi árásirnar áfram að hafa djúpstæð áhrif á börn í landinu. 

Skólabörn í Líbanon. Börn og fjölskyldur þeirra líða fyrir stríðsátök síðasta árs enn í dag. © UNICEF/UNI678219/Choufany

Árásir á Líbanon höfðu verulega neikvæð áhrif á velferð barna þar í landi og halda áfram að hafa þó vopnahlé hafi verið í gildi síðan í nóvember síðastliðnum. Frá þessu er greint í nýrri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, þar sem greint er frá niðurstöðum velferðarkönnunar sem náði til ríflega 3.000 fjölskyldna.

Börn og fjölskyldur neyddust til að flýja heimili sín vegna árásanna, mikilvægir innviðir voru eyðilagðir og tóku þær líkamlegan og andlegan toll á börnum víðs vegar um landið.

„Stríðið tók sláandi toll á börnum og hafði áhrif á nær alla þætti lífs þeirra. Heilsu, menntun og á endanum á framtíð þeirra,“ segir Akhil Iyer, fulltrúi UNICEF í Líbanon, í tilkynningu vegna málsins. „Börn í Líbanon þurfa stuðning til að jafna sig, endurbyggja líf sitt og komast í gegnum varanleg áhrif þessa neyðarástands.“

Í könnun UNICEF, sem gerð var í janúar 2025, sögðust 72 prósent foreldra og forráðamanna að börn þeirra hafi upplifað kvíða og vanlíðan á meðan á stríðinu stóð og 62% að þau hafi verið þunglynd eða sorgmædd. Er þetta mikil aukning samkvæmt gögnum sem tekin voru saman frá árinu 2023. Þrátt fyrir að 8 af hverjum 10 forráðamönnum nú segjast hafa séð jákvæða þróun á andlegri líðan barnanna frá vopnahléi, er ávallt hætta á að einstaklingar sem hafa mátt upplifa lengri tímabil stóráfalla og streitu geti glímt við afleiðingarnar til frambúðar.

Helmingur barna býr við fæðufátækt

Niðurstöðurnar sýna einnig slæmt næringarástand barna, sérstaklega á þéttbýlum stöðum eins og Baalbeck-Hermel og Bekaa sem ítrekað voru skotmörk loftárása.

Í Baalbeck-Hermel býr rúmlega helmingur barna (51%) undir tveggja ára aldri við alvarlega fæðufátækt og 45% í Bekaa sem er mikil aukning frá árinu 2023 þegar hlutfallið var 28%. Skilgreining á fæðufátækt barna er ef þau neyta aðeins tveggja eða færri af átta lykilfæðuhópum daglega.

Staðan er litlu skárri hjá eldri börnum. Nærri helmingur (49%) barna undir 18 ára aldri í Bekaa og rétt rúmlega þriðjungur (34%) í Baalbeck-Hermel höfðu annað hvort ekki borðað eða aðeins fengið eina máltíð daginn fyrir könnunina. Á landsvísu var hlutfallið 30%.

Menntun barna

Átökin hafa einnig haft skaðleg áhrif á þegar laskað menntakerfi Líbanon þar sem fyrir voru þegar hálf milljón barna sem ekki voru í námi eftir áralangar efnahagsþrengingar, kennaraverkföll og áhrif Covid-19 heimsfaraldursins. Skólar voru eyðilagðir meðan aðrir skemmdust illa í stríðinu og hundruð skóla þurfti að breyta í neyðarskýli fyrir marga af þeim 1,3 milljónum sem neyddust til að flýja heimili sín.

Þrátt fyrir vopnahlé var rúmlega 25% barna ekki í námi þegar könnunin var gerð en 65% barna voru ekki í námi á meðan á árásum stóð.

Aðrar niðurstöður könnunarinnar voru meðal annars:

·       45% heimila þurfti að neita sér um heilbrigðisþjónustu í sparnaðarskyni og 30% um menntun til að hafa efni á nauðsynjum.

·       31% heimila hafði ekki nægt drykkjarvatn.

·       33% heimila hafði ekki aðgengi að þeim lyfjum sem börnin þeirra þurftu á að halda.

·       22% heimila var án hita fyrir veturinn.

Líbanon stendur frammi fyrir miklum áskorunum við að jafna sig eftir stríðsátökin og áralangt pólitískt og efnahagslegt umrót. UNICEF er til staðar fyrir börn í Líbanon, bæði fyrir stríð, á meðan á því stóð og mun halda áfram að styðja þau til bjartari framtíðar og uppbyggingar.


Fleiri
fréttir

28. febrúar 2025

Stríðið í Líbanon hafði skaðleg áhrif á líðan, næringu og menntun barna
Lesa meira

28. febrúar 2025

UNICEF bregst við kólerufaraldri í Súdan sem ógnar lífi barna
Lesa meira

27. febrúar 2025

Alvarleg brot gegn börnum þrefaldast á einum mánuði í Kongó
Lesa meira
Fara í fréttasafn