01. desember 2023

Stríðið gegn börnum heldur áfram

„Að samþykkja fórn barna á Gaza jafngildir uppgjöf mannkyns gagnvart mannúð. Þetta er okkar síðasta tækifæri“ segir talsmaður UNICEF

Eyðilegging á Gaza. Mynd úr safni/UNICEF

„Í dag ákváðu valdhafar að morðin á börnum skyldu halda áfram,“ sagði James Elder, talsmaður UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, í myndbandsávarpi sínu á blaðamannafundi í Genf í morgun. Elder hefur verið á Gaza undanfarið og séð með eigin augum þá eyðileggingu og neyð sem blasir við börnum, sem eru um helmingur allra íbúa Gaza-svæðisins. Þegar þetta er skrifað standa viðræður um nýtt vopnahlé enn, en árásir hófust þó aftur þegar vopnahléi undanfarinna daga lauk.

Elder var ómyrkur í máli í ávarpi sínu og segir að hann hafi haldið rakleiðis á Nasser-sjúkrahúsið og á leiðinni sá að sprengja hafði fallið í næsta nágrenni við það. Nasser stærsta starfhæfa sjúkrahúsið á Gaza en er yfirfullt svo um munar. Hundruð kvenna og barna sofa í biðstofum og á göngum spítalans og hvert sem litið er má sjá afleiðingar árása.

„Blóð og blóðugar umbúðir þekja gólfin. Starfsfólk er úrvinda. Ég sá móður gráta meðan syni hennar blæddi út. Dauðinn er alls staðar. Ég hef verið að heimsækja Nasser spítalann alla vikuna. Til að hlusta á börn, hugrakka heilbrigðisstarfsmenn og fjölskyldur. Leika við börn og leiða huga þeirra frá martröðinni sem þau eru stödd í. Í örfá augnablik sá ég blíða breytingu í augum þeirra, eins og ögn af barnæsku þeirra væri að snúa aftur. En ekki lengur. Óttinn hefur snúið aftur og líka hinir særðu. Blóðugir sjúklingar fóru að streyma inn á ný meðan ég var þar.“ 

Uppgjöf mannkyns

Elder segir það vítavert gáleysi að ætla að frekari árásir á íbúa Gaza muni leiða til einhvers annars en meiri blóðsúthellinga og eyðileggingar. 

„Það er óhugnanlegt að heyra hvernig sumir virðast geta horft fram hjá dauðsföllum þessara barna án hluttekningar. Og í dag virðist sem það fái ekki á þá sömu þegar hryllingurinn hefst á nýjan leik. Að samþykkja fórn barna á Gaza jafngildir uppgjöf mannkyns gagnvart mannúð. Þetta er okkar síðasta tækifæri.“ 

Samkvæmt nýjustu tölum UNICEF frá 20. nóvember höfðu að minnsta kosti 12.700 Palestínumenn, þar af rúmlega 5.350 börn, látið lífið síðan árásir á svæðið hófust.

  • Vopnahlé síðustu daga veitti UNICEF og öðrum mannúðarstofnunum tækifæri til að koma nauðsynlegum hjálpargögnum til íbúa en þessi stutti gluggi var þó fjarri því nógu langur til að mæta þörfum þeirra 1,8 milljóna einstaklinga sem eru nú á vergangi þar.
  • Í síðustu viku nýtti UNICEF hléð til að skala upp aðgerðir sínar og fór í þrjá leiðangra til Norður-Gaza þar sem dreift var 10 þúsund hreinlætispökkum sem duga fyrir 50 þúsund manns.
  • UNICEF hefur náð til 13.500 barna, þar af 6.884 stúlkna og 107 barna með fötlun, með afþreyingu á barnvænum svæðum í 31 neyðarskýli víðs vegar um Khan Younis, Deir Al Balah, Rafah, An Nuseirat og Bani Suhila samfélög og búðir í Suður-Gaza.
  • Nauðsynlegar bólusetningar hófust á ný þar sem náðist að sækja birgðir bóluefna sem voru staðsettar í vöruhúsi í miðborg Gaza og fluttar suður í leiðangri UNICEF og WHO.
  • UNICEF hefur veitt nærri 250 þúsund einstaklingum, eða um 30.500 fjölskyldum – og þar af 115 þúsund börnum, fjárhagsaðstoð.
  • Borin hafa verið kennsl á tíu fylgdarlaus og viðskila börn, þrjú á Gaza-ströndinni og sjö á Vesturbakkanum, og þau skrásett í aðgerð með UNRWA.

Við minnum á neyðarsöfnun UNICEF á Íslandi fyrir börn á Gaza sem er enn í fullum gangi. Horfum ekki framhjá þeim börnum sem þjást vegna þessara árása. Gefumst ekki upp á mannkyninu.  

Sendu SMS-ið NEYD í númerið 1900 til að styrkja um 2.900 krónur (Síminn og Nova).

Söfnunarreikningur fyrir frjáls framlög: 701-26-102015

Kennitala: 481203-2950

Við tökum einnig við styrkjum í gegnum AUR appið í númerið: 123 789 6262 eða @unicef.

Svo minnum við á að þú getur einnig veitt framlag í formi Sannra gjafa á vefsíðu okkar og þannig styrkt neyðarsöfnunina um 3.800 krónur.

              

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn