26. nóvember 2024

Söfnunarþáttur UNICEF verður sögulegur sjónvarpsviðburður

Búðu til pláss föstudaginn 6. desember kl. 19:40 – Söfnunar- og skemmtiþáttur UNICEF á Íslandi í beinni útsendingu á RÚV, Stöð 2 og Sjónvarpi Símans 

Fulltrúar RÚV, Stöð 2, Sjónvarpi Símans og Sýn ásamt Birnu Þórarinsdóttur, framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi, og kynnum kvöldsins. Mynd/Árni Beinteinn

Komdu í hóp Heimsforeldra UNICEF – Skráðu þig hér.

Í tilefni af 20 ára afmæli UNICEF á Íslandi kynnum við sögulegan viðburð í íslensku sjónvarpi þegar söfnunar- og skemmtiþátturinn Búðu til pláss verður sendur út í beinni útsendingu á RÚV, Sjónvarpi Símans og á Stöð 2 í samstarfi við Vodafone og Kviku banka.  Sýn, sem á og rekur Stöð 2 og Vodafone, leggur auk þess til höfuðstöðvar sínar undir útsendinguna og símaver Vodafone í þágu málstaðarins. Búðu til pláss í hjartanu þínu, skráðu þig sem Heimsforeldri UNICEF og eigðu ógleymanlega kvöldstund með fjölskyldunni föstudagskvöldið 6. desember klukkan 19:40.

Síðastliðin 20 ár hafa tugþúsundir Íslendinga átt þátt í heimsmeti í að leggja réttindum og velferð milljóna barna um allan heim lið með því að vera Heimsforeldrar UNICEF. Nú sem aldrei fyrr þurfa börn heimsins á stuðningi þínum að halda enda aldrei fleiri börn búið við hörmungar sem þau eiga enga sök á.  

Stóru sjónvarpsstöðvarnar þrjár taka allar höndum saman og búa allar til pláss í dagskránni sinni svo þú getir búið til pláss í hjartanu þínu í þágu barna í neyð. Gerum það sögulega samstarf að sögulegri stund í 20 ára sögu UNICEF á Íslandi.  

Búðu til pláss fyrir tónlist, grín og góðverk 

Í þættinum verður boðið upp á úrval skemmtiatriða, grín, dans og tónlist þar sem landsþekktir einstaklingar og velunnarar UNICEF leggja sitt af mörkum í þágu málstaðarins. Í þættinum koma m.a. fram Diljá Pétursdóttir og Björn Stefánsson, dansarar í Ungleikhúsinu og Örn Árnason ásamt Halldóru Geirharðsdóttur, Páli Óskari, Sigríði Thorlacius, Ólafi Darra og Gunnari Hanssyni. Tónlistaratriði kvöldsins verða glæsileg þar sem fram koma meðal annars Pollapönk, Ragga Gísla, Pálmi Gunnarsson, Una Torfa, Unnsteinn Manúel, Rakel Sigurðardóttir, Högni Egilsson, Elín Hall, Daníel Ágúst og Vitringarnir þrír. Kynnar kvöldsins verða Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir og grínstjórar kvöldsins og kynnar í símaveri Vodafone eru Fannar Sveinsson og Sandra Barilli.   

Meginmarkmið kvöldsins verður að fjölga í hópi Heimsforeldra UNICEF, mánaðarlegra styrktaraðila Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, og munu sjálfboðaliðar í símavera Vodafone taka á móti símtölum verðandi Heimsforeldra allt kvöldið. Við munum leggja áherslu á von og árangur í fjölkrísuheimi og veita áhorfendum innsýn inn í störf og verkefni UNICEF um allan heim. Sérstök áhersla í þættinum verður á hörmungar barna á Gaza og hvernig þú getur lagt þitt af mörkum til að styðja við börn sem misst hafa allt sitt í stríði sem þau bera enga ábyrgð á. Fyrstu þrír mánuðir af framlögum nýskráðra Heimsforeldra munu þannig renna til neyðarsöfnunar fyrir börn á  Gaza. 

Komdu í hóp Heimsforeldra UNICEF – Skráðu þig hér.

Ógleymanleg kvöldstund fyrir alla fjölskylduna 

„Við lofum ógleymanlegri kvöldstund í krafti þessa öfluga samstarfs, þar sem við munum í senn slá á létta strengi sem og hjartastrengi þjóðarinnar í þágu réttinda barna,“ segir Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.  „Tuttugu ára samfylgd og stuðningur Heimsforeldra UNICEF á Íslandi hefur skilað sögulegum árangri í þágu barna um allan heim. Samtakamáttur þjóðarinnar sýnir sig í því að okkar litla þjóð á heimsmet í hlutfallslegum fjölda Heimsforeldra innan UNICEF. Við erum ótrúlega þakklát öllum samstarfsaðilum okkar í þessu risavaxna verkefni sem öll hafa lagst á eitt til að búa til pláss fyrir UNICEF og Heimsforeldra. Nú þegar við fáum svona dýrmætt pláss fyrir skilaboð og erindi UNICEF, biðjum við þjóðina að búa til pláss í hjartanu sínu og skrá sig sem Heimsforeldra. Sýnum í verki að við stöndum með voninni, að við stöndum með réttindum og velferð barna um allan heim, því það hefur aldrei verið mikilvægara.“   

Búðu til pláss – fyrir betri heim fyrir börn 

Heimsforeldrar UNICEF eru mikilvægustu styrktaraðilar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Sem Heimsforeldri styður þú ekki við eitt tiltekið barn, heldur börn um allan heim í gegnum stærstu hjálparsamtök í heimi fyrir börn og myndar þannig öryggisnet fyrir öll börn ásamt öðrum Heimsforeldrum. 

Í fyrra tryggðu Heimsforeldrar UNICEF meðal annars: 

  • 40 milljónum barna og ungmenna aðgengi að menntun og 30 milljónum skólagögn til náms.
  • Rúmlega 42 milljónum einstaklinga hreint vatn og hreinlætisþjónustu við neyðaraðstæður.  
  • Rúmlega 400 milljónum barna bólusetningu við mænusótt og 130 milljónum við mislingum. Bólusetningar hafa bjargað sex mannslífum á mínútu síðustu 50 árin og eru árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að börn veikist og deyi af völdum sjúkdóma. 
  • Rúmlega 430 milljónum barna, barnshafandi kvenna og nýbakaðra mæðra þjónustu til að meðhöndla og fyrirbyggja vannæringu. 
  • Og vissir þú að fleiri börn lifa nú af fyrstu fimm ár ævi sinnar en nokkru sinni fyrr og að dánartíðni barna á þessum aldri hefur dregist saman um 51% frá árinu 2000?  

Þessi árangur er vitnisburður um þann árangur sem UNICEF hefur náð á undanförnum áratugum í þeim verkefnum sínum að auka aðgengi að grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu, bólusetja börn  gegn hættulegum sjúkdómum, veita mæðrum og foreldrum nauðsynlegan stuðning og fræðslu, sinna langtímauppbyggingu samfélaga og bregðast við neyðaraðstæðum með mannúðaraðstoð um allan heim. 

Búðu til pláss í hjartanu þínu – fyrir líf allra barna. Horfðu á söfnunarþátt UNICEF og skráðu þig sem Heimsforeldri  í dag.

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn