UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, lýsir í dag miklum áhyggjum af stöðu menntunar hjá börnum í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó og kallar eftir neyðaraðgerðum til að bjarga skólaárinu hjá hundruð þúsunda barna. UNICEF heldur áfram að styðja við menntun barna í landinu og hefur unnið að að því að koma upp tímabundnum skólastofum, dreifa skólagögnum og hreinlætispökkum til að tryggja áframhaldandi nám barna.
Óttast er að í þeirri skálmöld sem nú geisar í Kongó að mörg börn eigi ekki afturkvæmt í skóla. Ofbeldi og fólksflótti gera það að verkum að frá því í desember síðastliðnum hefur börnum sem ekki geta gengið í skóla fjölgað um 330 þúsund og eru nú 795 þúsund alls þar sem ástandið er verst.
Átök tekið sinn toll á skólakerfinu
Skólakerfið var veikt fyrir ekki síst vegna þess að 6,5 milljónir íbúa, þar af 2,6 milljónir barna, hafa neyðst til að flýja heimili sín og eru nú á vergangi. En hörð átök frá því í byrjun árs hafa gert það að verkum að loka hefur þurft rúmlega 2.500 skólum og kennslusvæðum í Norður- og Suður-Kivu, sem og í flóttamannabúðum.
UNICEF skoðar nú möguleikann á að nýta útvarpstækni til kennslu og setja aukinn kraft í menntaverkefni í landinu til að ná til barna jaðarsettra barna og þeirra sem búa á afskekktari svæðum.
Skólar mikilvægir á átakatímum
Á neyðartímum eru skólar nauðsynlegir til að viðhalda stöðugleika í lífi barna og tryggja þeim örugg svæði og vernd auk þess sem börn sem orðið hafa fyrir áfalli geta fengið sálrænan stuðning þar.
„Þetta er hörmungarstaða fyrir börn. Menntakerfið og stuðningsnetið sem það veitir er það sem börn þurfa til að halda í eðlilegt ástand í lífi sínu, jafna sig og endurbyggja eftir þessi átök,“ segir Jean Francois Basse, starfandi fulltrúi UNICEF í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.
„Síðastliðin tvö ár höfum við fjárfest mikið í skólum og menntastofnunum á flóttamannasvæðum í kringum Goma. En þær standa nú að mestu auðar og við höfum miklar áhyggjur af því að börn sem neyðst hafa til að leggja á flótta oftar en einu sinni, eigi ekki afturkvæmt í skóla,“ segir Basse.
UNICEF kallar einnig eftir því að stríðandi fylkingar virði friðhelgi skóla og annarra mikilvægra innviða eins og kveðið er á um í alþjóðalögum og láti þegar í stað af öllum hernaðaraðgerðum gegn öllum menntastofnunum.