29. apríl 2022

Skelfilegir þurrkar og vannæring ógna lífi 10 milljóna barna

Hungursneyð vofir yfir Eþíópíu, Keníu, Sómalíu og Djibútí – Verstu þurrkar í áratugi – Þrjú rigningatímabil í röð hafa brugðist á Afríkuhorninu

Þúsundir leita skjóls í Higlo-flóttamannabúðunum í Eþíópíu og fá þar aðstoð, stuðning og næringarmeðferð frá UNICEF.

Alþjóðasamfélagið verður að bregðast við skelfilegri mannúðarkrísu sem nú ríkir á Afríkuhorninu svokallaða, í Eþíópíu, Keníu, Sómalíu og Djibútí. Þetta segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, eftir fjögurra daga heimsókn sína til Eþíópíu í vikunni. Viðvarandi þurrkar, fæðuskortur, vannæring og versta neyð vegna loftlagsbreytinga í 40 ár ógna nú lífi 10 milljóna barna.

„Áhrif þurrkatíðarinnar í Eþíópíu eru átakanleg,“ segir Russell í yfirlýsing sinni. „Í Sómalí-héraði, þar sem staðan er hvað verst í landinu, hitti ég börn og fjölskyldur sem bókstaflega höfðu misst allt sitt. Búfé drepst í unnvörpum og tekjur heimila eru að engu orðnar. Þau geta ekki fætt börn sín og fólk neyðist til að flýja heimili sín að leita matar og vatns. Við verðum að ná til þessara fjölskyldna áður en það er um seinan.“

Alvarleg bráðavannæring aukist mikið

Þrjú rigningatímabil í röð hafa brugðist með tilheyrandi uppskerubresti og eyðileggingu. Löndin fjögur, Eþíópía, Kenía, Sómalía og Djibúti, eru að  upplifa sína verstu þurrkatíð í áratugi. Í þessum löndum þurfa 10 milljónir barna á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.

Þurrkatíðin er að valda því að vannæring meðal barna og fjölskyldna þeirra hefur rokið upp. 1,7 milljón börn þjást af alvarlegri bráðavannæringu á svæðinu. Innlagnir í Eþíópíu vegna alvarlegrar bráðavannæringar hjá börnum undir fimm ára, hefur fjölgað um 15 prósent í febrúar 2022 samanborið við febrúar í fyrra.

„Við stöndum ekki aðeins frammi fyrir vannæringarkrísu því skortur á hreinu vatni er að auka verulega á neyð íbúa,“ segir Russell. „Börn neyðast til að drekka óhreint vatn sem eykur verulega hættuna á kóleru og öðrum banvænum vatnsbornum sjúkdómum. Í Sómalí-héraði Eþíópíu höfum við að auki fengið tilkynningar um yfir þúsund tilfelli mislinga og 16 staðfest andlát vegna þeirra.“

Vannært barn í Higlo-búðunum í Eþíópíu fær meðferð með jarðhnetumauki frá UNICEF.

Barnahjónaböndum fjölgað um 51%

Vannæring og sjúkdómar eru ekki það eina sem ógna lífi og velferð barna á svæðinu. Rúmlega 600 þúsund börn á þurrkasvæðunum hafa hætt í skóla. Margir skólar hafa lokað vegna vatnsskorts og mörg börn verða af rétti sínum til menntunar þar sem þau þurfa að ferðast langar leiðir í leit að vatni og mat, eða hugsa um systkini sín meðan foreldrar og forráðamenn leita aðfanga.

Þekkt er að ástand sem þetta setur börn í margvíslega hættu og ein birtingamynd þess er aukning í barnahjónaböndum. Fjölskyldur neyðast oft til að gefa ungar dætur sínar í hjónaband í von um að þær hljóti betra líf og öryggi. En þær eru einnig seldar í hjónabönd. Á sumum þurrkasvæðum Eþíópíu hefur barnahjónaböndum fjölgað um 51 prósent.

Það sem UNICEF er að gera núna

UNICEF í Eþíópíu mun tafarlaust bregðast við með auknum þunga í von um að ná til 3,4 milljóna íbúa, þar af 1,4 milljóna barna. UNICEF vinnur nú að því að endurnýja og setja upp nýjar vatnsborholur, flytja vatnsbirgðir til svæðisins, meðhöndla alvarlega vannærð börn, tryggja menntun og barnaverndarúrræði.

UNICEF er líka að fjárfesta í vatnsveitukerfum sem ganga fyrir sólarorku til að reyna að tryggja langtímalausn við vandanum.

 „Við erum þakklát rausnarlegum stuðningi styrktaraðila en við þurfum að gera meira til að bjarga lífi milljóna barna,“ segir Russell. „Við megum aldrei gleyma því að á bak við hverja tölfræði er barn með sömu vonir og drauma og önnur börn um allan heim. Og þau eiga sömu réttindi til að uppfylla þessar vonir sínar og drauma.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn