06. nóvember 2024

Síðasta nýburagjörgæslan í Norður-Gaza skemmd eftir árásir

Harðorð yfirlýsing Adele Khodr, svæðisstjóra UNICEF í Mið-Austurlöndum:

Meðfylgjandi mynd var tekin á nýburagjörgæsludeildinni á Kamal Adwan-sjúkrahúsinu í Norður-Gaza í síðasta mánuði. Mynd: UNICEF/Hussain Fayez

„Kamal Adwan-sjúkrahúsið í Norður-Gaza er orðið umsetið stríðssvæði. Nýburagjörgæsludeild sjúkrahússins, sem er sú síðasta sem eftir er í norðri, hefur orðið fyrir skemmdum í árásarhrinu síðustu daga,“ segir Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og N-Afríku, í yfirlýsingu sinni í dag.

„Aðgengi að sjúkrahúsinu er ótrúlega erfitt og samkvæmt tilkynningum hafa börn sem þar voru að fá aðhlynningu látið lífið og særst í þessum árásum. Súrefnis- og vatnsbirgðir sjúkrahússins skemmdust sem raskar nauðsynlegri þjónustu þeirra barna sem enn berjast fyrir lífi sínu innan veggja sjúkrahússins.“

„Hver nýburi sem berst fyrir sínum næsta andardrætti í hitakassa sjúkrahússins er með öllu varnarlaus og þarfnast sérfræðiþjónustu og –búnaðar til að lifa af. Á Gaza-ströndinni hefur lokast á lífsbjargandi nýburaþjónustu minnst fjögur þúsund barna síðastliðið ár vegna árása á sjúkrahús þar sem allt er reynt til að halda þeim á lífi. Árása sem leitt hafa til skorts á rafmagni eða eldsneyti til að halda starfseminni gangandi. Þetta hefur verið börnum lífshættulegt og sérstaklega í norðurhluta Gaza.“

 „Fyrir árásirnar í október 2023 voru átta nýburagjörgæsludeildir á Gaza og alls 178 hitakassar fyrir nýbura. Flestar þessara deilda voru þá nýlega búnar að fá nýjan tækjabúnað, þar á meðal hitakassa, frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Meira að segja þá, fyrir allar þessar hörmungar, annaði gjörgæsluþjónusta fyrir nýbura á Gaza ekki eftirspurn.“ 

„Í dag er staðan sú að þrjár þessara nýburagjörgæsludeilda eru ónýtar, allar í norðurhluta Gaza. Og aðeins eru um 54 hitakassar fyrir nýbura eftir á allri Gaza-ströndinni. Í norðurhlutanum hefur þessum hitakössum fækkað úr 105 í aðeins 9, sem allir voru á Kamal Adwan-sjúkrahúsinu. Eftir árásarhrinu síðustu daga er óljóst hvort þeir séu í lagi núna.“

„Að minnsta kosti 6 þúsund nýfædd börn þurfa á nýburagjörgæslu að halda á Gaza á hverju ári. Raunverulegur fjöldi þeirra gæti verið enn hærri að sögn lækna sem benda á að hlutfall barna sem fæðast fyrir tímann, vannærð eða aðra heilsukvilla hefur aukist vegna áhrifa stríðsins á fósturþroska, fæðingar og umönnun.“

„Heilbrigðisstofnanir njóta verndar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum, sem og heilbrigðisstarfsfólk og starfsfólk mannúðarstofnana. Það er verið að drepa varnarlausa nýbura, veik og særð börn í tjöldum, í hitakössum og í fangi foreldra sinna. Að þessi staðreynd hafi ekki náð að tryggja nægan pólitískan vilja til að binda enda á þetta stríð er til vitnis um neyðarástand mannúðar í heiminum.“

–Adele Khodr, svæðisstjóri UNICEF í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku.

Fleiri
fréttir

20. desember 2024

Opnunartími skrifstofu um hátíðarnar
Lesa meira

19. desember 2024

BM Vallá og UNICEF á Íslandi undirrita samstarfssamning til þriggja ára 
Lesa meira

18. desember 2024

UNICEF: Börn í Sýrlandi þurfa frið
Lesa meira
Fara í fréttasafn