20. desember 2021

Samtengdir tvíburar frá Jemen aðskildir með aðstoð UNICEF

Jemensku tvíburarnir Ahmed og Mohamed Albukhaity fæddust samtengdir á bringu og maga í Sana‘a í desember í fyrra

20. desember 2021 Jemensku tvíburarnir Ahmed og Mohamed Yasser fæddust samtengdir á bringu og maga í Sana‘a í desember í fyrra. Eftir fæðingu leituðu læknar og heilbrigðisyfirvöld í Jemen eftir aðstoð UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, við að tryggja sjúkraflutning tvíburanna til Jórdaníu og fjármagna umfangsmikla skurðaðgerð til að aðskilja þá. UNICEF svaraði kallinu og gengust Ahmed og Mohamed undir vel heppnaða skurðaðgerð í júlí síðastliðnum.

Nú, tæpu hálfu ári eftir aðgerðina, hafa tvíburarnir og fjölskylda þeirra snúið aftur heim til Sana‘a í Jemen.

„Ég get vart tjáð þakklæti mitt með orðum,“ segir Yasser Albukhaity, faðir drengjanna. „Við vorum óttaslegin í byrjun en við treystum á Allah og læknateymið. Guði sé lof að skurðaðgerðin heppnaðist svona vel. Mig langar til að þakka UNICEF, styrktaraðilum, heilbrigðisráðuneyti Jemen og öllum þeim sem hjálpuðu okkur á þessari vegferð. Ég á mér þá ósk heitasta að synir mínir muni í framtíðinni geta menntað sig eins og önnur börn og orðið þjóð sinni mikill liðsstyrkur.“

Þökk sé veglegum framlögum fjölmargra velunnara gat UNICEF greitt fyrir allan kostnað vegna aðgerðarinnar. Philippe Duamelle, fulltrúi UNICEF í Jemen kveðst afskaplega þakklátur stjórnvöldum í Jemen, Jórdaníu og öllum þeim fjölmörgu sem komu að þessari umfangsmiklu aðgerð. Ljóst sé að hún gefi drengjunum tækifæri til betra lífs.

„Við erum ótrúlega þakklát að þessi fjölskylda fékk gleðilegan endi á þessa sögu. En milljónir jemenskra barna halda áfram að þjást í hljóði,“ segir Duamelle. „Mohamed og Ahmed snúa nú aftur til síns heimalands þar sem stríð hefur geisað í nær sjö ár. Aldrei hafa börn í Jemen þurft meira á stuðningi okkar allra að halda við að tryggja réttindi þeirra til heilbrigðis, næringar, menntunar og verndar. Þessi börn þurfa frið. Þangað til þá verðum við á vettvangi fyrir öll börn í Jemen.“

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn